Vilja stofna heilsársskóla fyrir fötluð börn

18.01.2016 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd: Stefan_Schranz  -  Pixabay
Hópur fagfólks og foreldra fatlaðra barna hyggst stofna heilsdags- og heilsárssskóla fyrir fötluð börn, sjálfseignarfélag þar sem kennt verður eftir aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar.

Þrír atferlisfræðingar, leikskólastýra og þrennir foreldrar ætla að stofna sjálfseignarfélag til að reka grunnskóla fyrir fötluð börn sem þurfa mikinn stuðning. Steinunn Hafsteinsdóttir atferlisfræðingur segir að stefnt sé að einstaklingskennslu allan daginn.

 

„Það sem skilur þennan skóla frá öðrum skólum og sérdeildum fyrir fötluð börn er að við ætlum að kenna eftir gagnreyndum aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar, sem oft er notuð í leikskólum,“ segir Steinunn. „En það er ekkert sem tekur við þegar þessi börn klára leikskólann.“

 

Ætlunin er að setja markmið fyrir börnin í samráði við foreldra þeirra og að yfirleitt verði hverju og einu barni kennt sér. 

„Einn þarf kannski að læra að sitja við matarborðið og lesa,“ segir Steinunn. „Annar þarf að æfa sig í að fara á klósettið eða reima skóna sína eða stærðfræði. Það fer alveg eftir því hvar þau eru stödd. Markmiðin eru ákveðin í samráði við foreldra, út frá því hvað þeim finnst að mikilvægast að börnin kunni, þá er sérstaklega horft til framtíðar svo þau verði sem sjálfstæðust. Það er ekki endilega alltaf akademísk markmið, þó að það sé auðvitað líka í bland.“

Steinunn segir að hugmyndin sé langt komin, hópurinn sé að skrifa námskrá. Framkvæmdin sé aftur á móti ekki komin langt. Þau séu að vinna í því að búa til sjálfseignarstofnun og þurfi til þess styrki. Næst sé að sækja um til menntamálaráðuneytisins og sveitarfélags. 

„Við ætlum að byrja með frekar fá börn á grunnskólaaldri, kannski í fyrstu bekkjum grunnskólans. Þetta verður heilsdagsskóli, skóli með frístund. Okkar draumur er að þetta verði sumardagvist líka til að börnin þurfi ekki að fara á of marga staði.“

Steinunn segir ekki víst hvaða sveitarfélag verður fyrir valinu, en það verði á höfuðborgarsvæðinu. Hópurinn stefnir á að opna skólann haustið 2017, en Steinunn segir óvíst hvort það tekst. 

Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV