Vilja skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa

17.07.2017 - 12:31
Mynd með færslu
Húsnæði Kauphallar Íslands.  Mynd: Ja.is  -  Skjáskot
Samtök atvinnulífsins telja skynsamlegt að almenningi verði veittur skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa. Það myndi efla atvinnulífið og bæta hag fyrirtækja og ríkissjóðs. Íslenskur almenningur hefur tekið lítinn þátt í hlutabréfaviðskiptum eftir hrun.

Þetta kemur fram í nýjum pistli á vef samtakanna. Þar er mælt með því að stjórnvöld horfi til Svíþjóðar varðandi skattalega hvata vegna fjárfestinga almennings í hlutabréfum. 

Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Nasdaq Iceland, fjallaði á dögunum um íslenska hlutabréfamarkaðinn í Vísbendingu - vikuriti um viðskipti og efnahagsmál. Lagði hann til að sænska leiðin verði farin til þess að hvetja fólk til að kaupa hlutabréf. Í Svíþjóð fá fjárfestingarsparireikningar sérstaka skattalega meðferð.

Samtök Atvinnulífsins taka undir þessa hugmynd. Bent er á að íslenskur almenningur hafi tekið talsverðan þátt í hlutabréfaviðskiptum fyrir hrun en þá var í gildi skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa sem uppfylltu ákveðin skilyrði. Eftir efnahagshrunið 2008 hefur almenningur hins vegar haldið að sér höndum á markaðnum, þrátt fyrir að skráðum félögum hafi fjölgað og verðmæti þeirra aukist. 

„Samtök atvinnulífsins eru þess fullviss að stjórnvöld vilji bæta þar úr enda um sameiginlega hagsmuni fólks, fyrirtækja og stjórnvalda að ræða,“ segir í pistlinum.