Vilja nýta sóknarfæri Öxafjarðar

22.01.2016 - 15:34
Mynd með færslu
 Mynd: Byggðastofnun
Íbúaþing fór fram í Öxarfirði um síðastliðna helgi. Það markaði upphaf að samráði við íbúana vegna verkefnis Byggðastofnunar, „Brothættar byggðir.“ Þar kom fram vilji íbúa til að nýta sérstöðu svæðisins til að nýta sóknafæri þess í matvælavinnslu, ferðaþjónustu og jarðhita.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Byggðastofnun. Fréttastofa sagði frá fyrirhuguðum fundi í síðustu viku. Þá sagði verkefnastjóri Byggðastofnunar, Silja Jóhannesdóttir, að óskað yrði eftir því að íbúar segðu hvað væri þeim efst í huga um eflingu svæðisins. Með því mætti hafa skýra mynd um framtíðarsýn þeirra að þinginu loknu.

Þær hugmyndir snúast meðal annars um sóknarfæri í ferðaþjónustu og matvælavinnslu. Markaðssetja þyrfti svæðið í heild, með nýrri heimasíðu og veita þeim fyrirtækjum sem eru á svæðinu stuðning. Einnig var nefnt að nýta jarðhita enn frekar. Nú þegar hefur verið byggt upp fiskeldi og grænmetisræktun sem nýtir hitann. Meðal annars mætti nýta hann í heilsutengda ferðaþjónustu.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að Silja  muni nú vinna að stefnumótun, markmiðasetningu og skilgreiningu verkefna upp úr skilaboðum þingsins, ásamt verkefnisstjórn. Sú stjórn er skipuð fulltrúa íbúa, ásamt fulltrúum frá Norðurþingi, Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga. 

 

 

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV