Vilja losna við Símon úr Stím-málinu

19.06.2017 - 20:14
Mynd með færslu
Óttar Pálsson og Lárus Welding.  Mynd: RÚV
Sakborningar í Stím-máli Sérstaks saksóknara kröfðust þess fyrir dómi í dag að Símon Sigvaldason viki sæti sem dómsformaður þegar málið verður endurflutt í héraðsdómi. Þeir telja að hann sé vanhæfur til að dæma í málinu, meðal annars vegna þess að hann hafi dæmt í því áður og einnig vegna þess að honum hafi láðst að víkja vanhæfum meðdómara frá í fyrri atrennunni.

Í málinu eru þrír ákærðir: Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, undirmaður Lárusar, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, sem var forstjóri Saga Capital. Þeim er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína með 20 milljarða króna lánveitingum til félagsins Stíms. Lárus fékk fimm ára fangelsi í fyrri umferðinni í héraði, Jóhannes tveggja ára dóm, sem lagðist við þriggja ára dóm sem hann hafði fengið í öðru máli, og Þorvaldur Lúðvík fékk 18 mánaða fangelsisdóm.

Hæstiréttur ómerkti hins vegar dóm héraðsdóms vegna vanhæfis meðdómarans Sigríðar Hjaltested. Ástæðan var sú að barnsfaðir og fyrrverandi eiginmaður Sigríðar starfaði hjá Glitni fyrir hrun og sat meðal annars fundi áhættunefndar Glitnis þar sem fjallað var um þær lánveitingar sem ákært var fyrir.

Stutt síðan síðast var beðið um að Símon viki

Málið var tekið fyrir að nýju í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og þar gerði verjandinn Óttar Pálsson þá kröfu fyrir hönd Lárusar að dómsformaðurinn Símon Sigvaldason viki sæti. Hann væri vanhæfur vegna þess að hann hefði áður sakfellt skjólstæðing hans í sama máli. Auk þess hefði hann mátt vita að Sigríður væri vanhæf í fyrri atrennunni en hafi láðst að gera nokkuð í því, sem einnig gerði hann vanhæfan í málinu.

Máflutningur um þessa kröfu Lárusar verður í september. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem sakborningar í hrunmálum Sérstaks saksóknara fara fram á að Símon Sigvaldason víki úr dómi eftir ógildingu dóms í Hæstarétti. Það gerðu líka sakborningar í Marple-málinu svokallaða. Á það var ekki fallist.

Í fyrri atrennunni var Hrefna Sigríður Briem þriðji dómarinn. Ekki er búið að velja dómara með Símoni í þetta skipti en Óttar tók það fram fyrir dómi í dag að ef Hrefna Sigríður yrði valin á nýjan leik mundi hann einnig gera kröfur í sömu veru um hana.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV