Vilja hefja skrautdúfuræktunina til flugs á ný

13.01.2016 - 23:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dúfnaræktendur, sem misstu rúmlega 200 skrautdúfur þegar húsnæði þeirra í Hafnarfirði brann í byrjun ársins, hafa óskað eftir samráði við bæjaryfirvöld um hreinsunar-og uppbyggingarstarf á húsinu og umhverfinu í kring. Þeir segja í bréfi til bæjarins að þeir hafi fullan hug á að vilja halda þeirri ræktun og dúfnastarfi sem þarna hafi verið um langt skeið.

Í bréfi dúfnaræktendanna, sem kynnt var á fundi umhverfis-og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar í morgun, kemur fram að bruninn hafi verið mikið reiðarslag og tilfinningalegt tjón.  

Ræktendurnir segjast alltaf verið reiðubúnir að hleypa þeim sem hafi farið um svæðið að skoða dúfurnar og keppnisfuglana sem þar voru. „Það er skýr vilji félagsmanna að rækta áfram dúfnastarfið á svæðinu með velvild og leyfi bæjaryfirvalda. Það tekur til uppbyggingar á húsinu sem brann og þeirra kofa sem eftir eru á svæðinu,“ segja dúfnamenn.

Umhverfis- og framkvæmdaráð fór þess á leit við skipulagsfulltrúa og bæjarlögmann að skoða erindið.

Rúmlega 20 ára starf eyðilagðist í brunanum og Skrautdúfufélag Hafnarfjarðar, sem átti húsið, var ekki tryggt. Fram kom í fréttum RÚV að tjónið næmi nokkrum milljónum - sem dæmi má nefna að kostnaður við hvern fugl getur verið allt að 40 þúsund krónur.