Vilja halda áfram ferjusiglingum yfir flóann

12.08.2017 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Bæjaryfirvöld á Akranesi vilja bjóða upp á ferjusiglingar milli Akraness og Reykjavíkur á næsta ári eins og gert hefur verið í sumar. Bæjarráð fól í vikunni Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra að hefja könnunarviðræður við Sæferðir og Reykjavík um áframhaldandi ferjusiglingar á næsta ári.

Ferjan Akranes byrjaði siglingar milli höfuðborgarinnar og Akraness snemma í júní, fyrst á virkum dögum en síðan hefur verið bætt við aukaferðum sumar helgar og í kringum viðburði á við fótboltaleiki.

„Það er mikill áhugi meðal ferðaþjónustuaðila á Akranesi að fá niðurstöðu sem fyrst í framhaldið. Þá er ég kominn með umboð frá bæjarstjórninni um að halda áfram að skoða möguleika með ferjusiglingar,“ segir Sævar Freyr bæjarstjóri. Aðsókn í ferðir ferjunnar hefur vaxið eftir því sem liðið hefur á sumarið. „Þegar strætó fór að ganga frá Akranesi til Reykjavíkur og til baka voru ekki mjög margir um borð í byrjun. Það tekur tíma að byggja upp svona þjónustu. Árangurinn hefur að mati Sæferða verið í samræmi við það sem vænta mátti við upphaf ferjusiglinga,“ segir Sævar Freyr. 

Sævar segir að það hafi komið í ljós, ekki síst í aukasiglingum á sólríkum helgardögum, að margir vilji nýta sér ferðir ferjunnar til að skjótast á Akranes, hvort sem er í golf, göngutúra, vitann á Langasand eða í annað. Þessu vilji menn halda áfram.

Sæferðir, sem heyra undir Eimskip, reka ferjuna samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg og Akraneskaupstað. Fyrst var ráðist í hálfsárs tilraunaverkefni með siglingarnar. Gunnlaugur Grettisson, yfirmaður ferjusiglinga hjá Eimskipum, lýsti ánægju sinni með gang siglinga í samtali við fréttastofu í síðasta mánuði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV