Vilja fæða í Vestmannaeyjum

03.02.2016 - 17:21
Ungabarn í teppi með blóm á milli tánna.
 Mynd: Pixabay
Á sjöunda hundrað manns hefur tekið þátt í undirskriftasöfnun undir yfirskriftinni „Réttur til að fá að fæða í Vestmannaeyjum“. Í inngangi segir að tilgangur listans sé að sýna fram á að konur í Vestmannaeyjum eigi ekki að þurfa að leggja á sig langt og strangt ferðalag til þess að fæða barn. Aðeins 3 börn fæddust í Vestmannaeyjum á síðasta ári.

Eyjafrettir.is greina frá undirskriftasöfnuninni. Í úttekt eyjar.net um fæðingar í Eyjum 13. janúar síðastliðinn segir að barnsfæðingar í Eyjum hafi ekki verið færri á þessari öld en þær voru í fyrra. Uppi á landi hafi þá fæðst 36 Eyjamenn. Barnsfæðingar í Eyjum voru 9 árið 2014, 25 árið 2013 og 21 árið 2012. Það ár fæddu síðast fleiri Eyjakonur í Eyjum en uppi á landi. Í lok úttektarinnar er þess getið að nú sé öldin önnur. Um síðustu aldamót hafi verið skurðstofa og svæfingalæknir við sjúkrahúsið og sjúkraflugvél staðsett í Eyjum. Ekkert af þessu sé til staðar nú.

Álag á konur og nýbura

Í rökstuðningi undirskriftasöfnunarinnar segir að nú sé mikið lagt á þungaðar konur í Eyjum, óvissa og álag vegna ferða til lands, bið, vinnutap maka og skólatap barna. Aukinheldur sé lítt fýsilegt fyrir mæður að fara með eins til tveggja daga gamalt barn í flug eða í Herjólf á leið heim. Ábyrgðarmaður undirskriftalistans er Sigurbjörg Jóna Vilhjálmsdóttir. Hann er opinn til 1. maí og er að finna á island.is , slóðin er https://listar.island.is/Stydjum/4

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV