Vilja einkarekinn grunnskóla á Hvanneyri

13.01.2016 - 14:21
Mynd með færslu
Börn á Hvanneyri.  Mynd: Bryndís Geirsdóttir
Íbúasamtök Hvanneyrar vilja stofna sjálfstætt starfandi grunnskóla á Hvanneyri og sendu í gær formlegt erindi til sveitarstjórnar Borgarbyggðar þessa efnis. Óskað er eftir því að sveitarstjórnin taki erindið til afgreiðslu á næsta sveitarstjórnarfundi og sendi svo erindið áfram til menntamálaráðuneytisins til afgreiðslu.

Margra mánaða deilur

Íbúar Hvanneyrar hafa verið mjög ósáttir frá því 11. júní síðastliðinn þegar sveitarstjórn ákvað að loka starfsstöð Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri og hafa deilur sveitarstjórnar og íbúasamtakanna staðið yfir í fleiri mánuði. Í umfjöllun Skessuhorns kemur fram að íbúarnir hafi hug á því að leigja eða jafnvel kaupa núverandi skólahús Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri og stofna einkaskóla. Farið er fram á að sveitarfélagið greiði sem nemur 75 prósentum af reiknuðu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar á nemanda samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands á ári hverju.

Fjárhagslegur ávinningur

Íbúar á Hvanneyri og nágrenni telja að með þessari leið geti sveitarfélagið sparað enn meira en gert var ráð fyrir að sveitarfélagið myndi spara ef skólinn væri lagður niður og börnum ekið í skóla í Borgarnes eða á Kleppjárnsreyki. Í erindi íbúasamtakanna kemur fram að: „Íbúar á Hvanneyri og nágrenni þess telja mjög mikilvægt að starfræktur verði skóli á svæðinu þannig að nemendur á Hvanneyri og nágrenni geti sótt skóla sem næst heimili sínu. Samkvæmt áætlunum íbúanna er gert ráð fyrir því að á fyrsta starfsári verði fimm yngstu bekkjardeildunum kennt en en að frá og með skólaárinu 2018-2019 verði þar sjö yngstu bekkjardeildirnar.

Vilji íbúa

Birgitta Sigþórsdóttir, sem er í íbúasamtökunum á Hvanneyri, segir að í leynilegum íbúakosningum sem fóru fram þann 17. september 2015 hafi komið glögglega í ljós að íbúar eru fylgjandi því að halda núverandi fyrirkomulagi á Hvanneyri, eða stofna eigin grunnskóla. „Yfir 90 prósent hugur á því að viðhalda því sem er, eða finna aðra lausn. Birgitta segir að íbúar í íbúasamtökunum telji sjálfstætt starfandi skóla geta laðað að fólk til svæðisins. Í erindi íbúasamtakanna segir að: „Þannig er stofnun skólans samfélagslegt verkefni. Birgitta segir að íbúasamtökin hafi undanfarið leitað til fjölmargra sérfræðinga til ráðfæringar vegna fyrirhugaðs skóla. Hún segir ljóst að íbúar séu tilbúnir að verja miklum tíma, vinnu og peningum í að tryggja velferð barna sinna.