Vilja breyta bæjarskrifstofum í kvikmyndaskóla

20.02.2016 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Kópavogsbær
Kvikmyndaskóli Íslands hefur gert bæjaryfirvöldum í Kópavogi tilboð upp á 700 milljónir í bæjarskrifstofurnar við Fannborg 2 - 6. Skólinn vill breyta skrifstofuhúsnæðinu í kvikmyndaskóla og stúdentaíbúðir. Bæjaryfirvöld hafa látið kanna hvað það kostar að byggja nýtt ráðhús við menningarhúsið Molann og hver kostnaðurinn yrði við endurbætur á Kópavogshælinu ef ákveðið yrði að nota það sem fundarsal fyrir bæjarstjórnina.

Böðvar Bjarki Pétursson, formaður stjórnar Kvikmyndaskóla Íslands, segir í bréfi til bæjarráðs að kvikmyndaskólinn myndi falla vel að því skólasamfélagi sem þegar er til staðar í bænum með MK í fararbroddi. „Hugmynd okkar með flutningi skólans í Fannborg er að breyta Fannborg 4 og 6 í litlar stúdentaíbúðir en í Fannborg 2 yrði skólinn sjálfur. Þannig verður búinn til „campus“ með miklu mannlífi sem sækir sér þjónustu á veitinga-og kaffihúsi í nágrenninu,“ segir í bréfinu.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði  í samtali við visir.is og mbl.is að sér litist vel á þessa hugmynd - salan yrði þó alltaf háð því að bærinn fyndi sér nýtt húsnæði.

Bæjarstjórn Kópavogsbæjar samþykkti á fundi sínum í byrjun mánaðarins að ef húsnæðið við Fannborg yrði selt, yrði samstarf við byggingarsamvinnufélög og leigufélög og bygging félagslegra íbúða sett í forgang. Í bréfi Böðvars Bjarka kemur fram að tíminn sem skólinn hafi sé naumur - hann vilji hefja starfsemi í nýjum húsakynnum strax í haust.

Kópavogsbær hefur sannarlega verið með alla anga úti hvað varðar nýtt stjórnsýsluhús. Til stóð að afgreiða það mál á fundi bæjarstjórnar í byrjun mánaðarins en þá átti að taka afstöðu til tveggja kosta. Annaðhvort yrði ráðist í viðhald á Fannborg strax eða farið yrði í viðræður um nýtt húsnæði í Norðurturni við Smáralind eða við Smáratorg.

Bæjarstjórn ákvað hins vegar að fresta þessari afgreiðslu og kanna tvo kosti til viðbótar - að byggja nýtt ráðhús við ungmennahúsið Molann á lóð sem bærinn á og láta gera úttekt á því hvað endurbætur á Kópavogshælinu myndu kosta þannig að hægt væri að nýta það undir fundi bæjarstjórnar.

Á fundi bæjarráðs á fimmtudag voru þessar hugmyndir síðan kynntar. Verkfræðiskrifstofan Mannvit telur að það myndi kosta bæjarfélagið tæplega einn og hálfan milljarð að reisa nýtt ráðhús. Kostnaður við endurbætur á Kópavogshælinu nemur um hundrað milljónum.

En sitt sýnist hverjum um framgöngu bæjarstjórnarinnar í þessu máli. Deildarstjóri bókhaldsdeildar bæjarins sendi til að mynda nokkuð harðort bréf til bæjarráðs þar sem hann lýsti yfir mikilli óánægju með að bæjarstjórnin skyldi ekki hafa tekið ákvörðun um hvar bæjarskrifstofurnar ættu að vera.

Í bréfinu kemur fram að núverandi aðstæður séu heilsuspillandi og dragi úr afköstum starfsmanna. Sjálfur hafi hann reynt það á eigin skinni. „Áður en ég hóf störf hjá Kópavogsbæ varð ég mjög sjaldan veikur en það hefur mikið breyst,“ segir í bréfi deildarstjórans. Hann kveðst hafa fundið fyrir því að sífelld frestun á ákvörðun bæjarstjórnar um umbætur á starfsmanna- og skrifstofuaðstöðu sé farin að hafa slæm áhrif á starfsánægju sína.

Reikna má með að línur taki að skýrast á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV