Vilja Assad frá, lífs eða liðinn

13.03.2016 - 07:48
epa05206487 Syrians raise the national flag at a main bridge in the old city of Damascus, Syria, 11 March 2016.The Syrian Ministry of Tourism launched an event to raise the Syrian flags on the markets and the masts of a main bridge in Damascus and on the
 Mynd: EPA
Ef friðarviðræðurnar sem hefjast eiga í Genf á morgun eiga að leiða til friðar í Sýrlandi verður Bashar el Assad Sýrlandsforseti að láta af völdum, lífs eða liðinn, segir í afdráttarlausri yfirlýsingu stjórnarandstæðinga. Viðræður hinna stríðandi fylkinga í Sýrlandi eiga að hefjast í Genf á morgun, mánudag, undir verndarvæng Sameinuðu þjóðanna. Aðalsamningamaður stjórnarandstæðinga, gerði lítið til að auka bjartsýni á árangur af þeim viðræðum með orðum sínum á fréttamannafundi í gær.

Mohammad Alloush var ómyrkur í máli við tíðindamann AFP-fréttaveitunnar. „Við teljum að umskiptin eigi að hefjast á valdasviptingu eða dauða Bashar al-Assads, “ sagði Alloush. „Þau geta ekki hafist á meðan ríkisstjórnin og leiðtogi hennar eru enn við völd.“  

Sameinuðu þjóðirnar þrýsta á um að bráðabirgðastjórn verði komið á og ný stjórnarskrá tekin í gagnið í Sýrlandi innan sex mánaða, og að hvort tveggja þing- og forsetakosningar verði haldnar á næsta ári. 

Samninganefnd helstu stjórnaranstöðufylkinga krefst þess að bráðabirgðastjórn verði komið á við fyrsta tækifæri og að hún fari með fullt og óskorað framkvæmdavald.

Samningamenn stjórnarinnar hafna þeirri kröfu algjörlega. Walid Muallem, utanríkisráðherra Assad-stjórnarinnar, sagði stjórnvöld ekki taka í mál að ræða við nokkurn þann, sem vildi gera forsetaembættið að bitbeini. Bashar el-Assad og seta hans á forsetastóli væri ekki til umræðu. Ef stjórnarandstæðingar ætli að halda sig við þennan málflutning, sagði utanríkisráðherrann á fréttamannafundi í Damaskus í gær, geta þeir allt eins sleppt því að fara til Genfar.  

Talsvert hefur dregið úr vopnaskaki í Sýrlandi eftir að umsamið vopnahlé hinna stríðandi fylkinga tók gildi fyrir rúmum tveimur vikum. Alloush, talsmaður stjórnarandstæðinga, sakaði sýrlenska stjórnarherinn og rússneska bandamenn hans þó um að virða ekki vopnahléð, sem hefði verið rofið minnst 350 sinnum síðan það hófst. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV