Viktor valinn íþróttamaður Akureyrar árið 2015

21.01.2016 - 13:10
Mynd með færslu
Viktor Samúelsson kraftlyftingamaður á Akureyri.  Mynd: Þórir Tryggvason  -  ÍBA
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Tryggvason  -  ÍBA
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Tryggvason  -  ÍBA
Kraftlyftingarmaðurinn Viktor Samúelsson, úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar, var í gær útnefndur íþróttamaður Akureyrar árið 2015. Íþróttabandalag Akureyrar verðlaunaði íþróttamenn í gær í Menningarhúsinu Hofi.

Aðildarfélög ÍBA tilnefna íþróttamenn úr sínum röðum, alls sextán manns og kosið er um hver þeirra þyki bera af. Á síðast ári varð Viktor yngstur Íslendinga til að lyfta 300 kílóum í bekkpressu. Hann er á 18. sæti á heimslista í sínum þyngdarflokki og fremstur á Norðurlöndunum í sínum aldursflokki.

Viktor er 22 ára og var ósigraður á síðasta ári í keppnum hér á landi. Óháð kyni og þyngdarflokki er hann stigahæsti kraftlyftingamaður landsins og sankaði að sér verðlaunum á árinu. Hann krækti í bronsverðlaun í bekkpressu í 120 kílóa flokki á heimsmeistaramóti ungmenna og sömuleiðis í bronsverðlaun þegar öll stig voru lögð saman. Þá hlaut hann silfurverðlaun í bekkpressu á Evrópumóti ungmenna.

Heiðursviðurkenningu ÍBA hlaut Haukur Þorsteinsson að þessu sinni, en hann var um árabil formaður íþróttafélagsins Eikar.

Eftirfarandi voru tilnefndir:
Akureyri handboltafélag :Kristján Orri Jóhannsson
Bílaklúbbur Akureyrar: Halldóra Kr. Vilhjálmsdóttir
Fimleikafélag Akureyrar: Auður Anna Jónasdóttir
Golfklúbbur Akureyrar: Kristján Benedikt Sveinsson
Hamrarnir: Elva Mary Baldursdóttir
Hestamannafélagið Léttir: Höskuldur Jónsson
Íþróttafélagið Draupnir: Breki Bernharðsson
Íþróttafélagið Þór: Tryggvi Snær Hlinason
KKA: Bjarki Sigurðsson
Knattspyrnufélag Akureyrar: Ævar Ingi Jóhannesson
Kraftlyftingafélag Akureyrar: Viktor Samúelsson
Skautafélag Akureyrar: Emilía Rós Ómarsdóttir
Skíðafélag Akureyrar: María Guðmundsdóttir
Skotfélag Akureyrar: Grétar Mar Axelsson
Sundfélagið Óðinn: Bryndís Rún Hansen
Ungmennafélag Akureyrar: Þorbergur Ingi Jónsson

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV