Víðtæk áhrif tímamótasamnings

17.01.2016 - 08:38
epa05105870 EU High Representative for Foreign Affairs and Security Policy Federica Mogherini (L) and Iranian Foreign Minister Mohammad Javad Zarif (R) attend a news conference after the talks between the E3+3 (France, Germany, Britain, China, Russia, US)
Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, og Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, kampakát í Vínarborg eftir að tilkynnt var um staðfestingu samningsins og afléttingu refsiaðgerða.  Mynd: CHRISTIAN BRUNA  -  EPA
Kjarnorkusamningur Írana og stórveldanna sem staðfestur var í gærkvöldi hefur víðtæk áhrif bæði innan Írans og utan. Heimsmarkaðsverð á olíu lækkar, hlutabréf í írönsku kauphöllinni tóku kipp og hagur hins almenna Írana vænkast væntanlega töluvert ef allt gengur eins og að er stefnt. Samningurinn leggur töluverðar kvaðir á herðar Írönum, en opnar um leið fyrir stóraukin samskipti og viðskipti við þeirra við umheiminn.

Minnkuð úran-notkun og stóraukið eftirlit

Íranar hafa skuldbundið sig til að hætta svo gott sem alveg að auðga úran, fækka skilvindum sem nýtast til þeirrar iðju úr tæplega 20.000 niður í rúmlega 5.000 næstu tíu árin og hætta uppbyggingu þungavatnsverksmiðju, sem hefði gefið af sér auðgað úran sem hægt hefði verið að nota í vopnaframleiðslu.

Þá minnka Íranar úranbirgðir sínar um 98% og skuldbinda sig til að eiga aldrei meira en 300 kg af því á lager næstu fimmtán árin, og það má ekki vera auðgað umfram 3,67%, sem nægir til orkuframleiðslu, en ekki í sprengjur. Auk þess skuldbinda þeir sig til að veita eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkueftirlitsins óheftan aðgang að öllum þeim stöðum sem þeir vilja skoða hverju sinni og heimila þeim að koma upp rafrænum eftirlitsbúnaði þar sem við á, svo það helsta sé nefnt.

Talsmaður Alþjóðakjarnorkueftirlitsins segir svo gott sem útilokað að Íranar geti hafið framleiðslu auðgaðs úrans eða þróun kjarnavopna á gildistíma samningsins án þess að upp komist. Kveðið er á um eftirlit næstu 15 árin hið minnsta. Eftirlitsmönnum verður fjölgað úr 50 í 150.

Höftum aflétt

Í staðinn er aflétt viðamiklum viðskiptatakmörkunum og öðrum refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna og Vesturveldanna. Ríflega hundrað milljarðar Bandaríkjadala íranska seðlabankans, sem frystir hafa verið í vestrænum fjármálastofnunum um árabil, eru nú aftur aðgengilegir írönskum stjórnvöldum til ráðstöfunar. Íranar fá aðgang að heimsviðskiptunum að nýju, sem þeir hafa verið útitlokaðir frá að mestu leyti árum og að hluta til áratugum saman.

Búist við að olíuverð lækki enn

Bann og hömlur á viðskiptum með olíu og gas frá Íran heyra víðast hvar sögunni til. Það þýðir stórauknar tekjur Írana af eldsneytisviðskiptum svo nemur tugum milljarða Bandaríkjadala á ári og mun væntanlega leiða til þess að heimsmarkaðsverð á olíu lækkar enn frekar en það hefur þegar gert. Tunnan af hráolíu seldist á 30 Bandaríkjadali í gær og hefur ekki verið ódýrari um tólf ára skeið. Er því spáð að verðið á tunnunni fari niður í og jafnvel niður fyrir 20 Bandaríkjadali nú, þegar Íranar fá aftur aðgang að mörkuðum. Olíuverð lækkaði töluvert um leið og opnað var fyrir viðskipti að morgni sunnudags.

Þá verður opnað á bankaviðskipti íranskra banka við flestar alþjóðlegar fjármálastofnanir og hlutabréf í írönsku kauphöllinni tóku stökk í gær. Í morgun lækkuðu hlutabréf hins vegar í kauphöllinni í Sádi-Arabíu. Íranar hafa þegar pantað 115 farþegaþotur af Airbus-verksmiðjunum. Flugfloti landsins er orðinn gamall og lúinn, enda ekki verið hægt að endurnýja hann lengi. Flugvélaviðskiptin eru ekki þau einu sem langt eru á veg komin eða jafnvel frágengin. Fjöldi risasamninga liggur þegar á borðinu og hefur jafnvel legið þar um hríð. Írönsk olíufyrirtæki, evrópsk hátæknifyrirtæki, alþjóðlegir byggingarisar og bankar hafa beðið þessa dags lengi og keppst við að hafa allt tilbúið þegar hann loks rynni upp.

Hópur háttsettra manna frá olíurisunum Total og Shell eru á ráðstefnu í Teheran, sem haldin er í tilefni 60 ára afmælis íranska olíuskipafélagsins þessa dagana. Vitað er að þeir funduðu með fulltrúum íranska ríkisolíufyrirtækisins strax í gær, laugardag, sama dag og tilkynnt var um yfirvofandi staðfestingu samningsins. 

Rouhani vonast eftir góðri kosningu

Vonast er til að áhrif þess að látið verði af refsiaðgerðum hafi mikil og skjót áhrif til hins betra á daglegt lif alls almennings í Íran. Rouhani Íransforseti treystir á að það fleyti honum langt í forsetakosningunum í febrúar næstkomandi. Ekki verður öllum refsiaðgerðum aflétt, til dæmis er vopnasölubann enn í gildi, og takmörk eru á viðskiptum bandarískra fyrirtækja í Íran, en þær eru ótengdar kjarnorkusamningnum.

Löng saga refsiaðgerða

Bandaríkin byrjuðu að beita Írana refsiaðgerðum strax árið 1979, eftir að Íranskeisara var steypt af stóli og klerkastjórnin tók völdin. 1995 hertu þeir á refsiaðgerðunum, sem þó voru ekki tengdar við kjarnorkubrölt Írana á þessum tíma. Ólögmæti klerkastjórnarinnar og víðtæk mannréttindabrot, auk tilrauna með stýriflaugar og önnur hátæknileg hernaðartól voru nefnd til sögunnar sem ástæður refsiaðgerðanna, sem fólust fyrst og fremst í því að meina bandarískum fyrirtækjum að eiga nokkur viðskipti við Íran og írönsk fyrirtæki. Þær refsiaðgerðir sem gripið var til á þessum forsendum verða meira og minna áfram í gildi.

Það var svo 2006 sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti fyrstu refsiaðgerðirnar vegna úranauðgunar Írana, í því skyni að knýja þá til að láta af þeirri iðju. Evrópusambandið greip til sinna fyrstu refsiaðgerða af sömu ástæðu ári síðar. Fjölmargar þjóðir aðrar, austan hafs og vestan, hafa sett ýmis konar takmarkanir á viðskipti við Íran á liðnum árum. Refsiaðgerðirnar urðu sífellt víðtækari, en alltaf hélt Íransstjórn því fram, að öll þeirra kjarnorkustarfsemi miðaði að orkuframleiðslu; engin áform væru uppi um þróun kjarnavopna. Því var ekki trúað betur en svo að 2012 lagði Evrópusambandið innflutningsbann á olíu og gas frá Íran og lét frysta allar innstæður íranska seðlabankans í evrópskum fjármálastofnunum.

Stífar kröfur hafa verið gerðar um aðgengi eftirlitsmanna Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar að öllum kjarnakljúfum, kjarnorkuverum, rannsóknarstofum og öllum þeim verksmiðjum og byggingum öðrum, þar sem einhver kjarnorkutengd starfsemi fer fram eða grunur leikur á um slíkt. Til skamms tíma strönduðu nánast allar viðræður samningsaðila á þessari kröfu, sem nú hefur fengist í gegn.