Viðsnúningur í rekstri Sólstafa

08.01.2016 - 11:37
Mynd með færslu
 Mynd: Sólstafir
Sólstafir, systursamtök Stígamóta á Ísafirði, sjá nú fram á rekstrarviðsnúning með aukinni þjónustu við íbúa á norðanverðum Vestfjörðum. Tvísýnt var um rekstur Sólstafa á haustmánuðum vegna fjárskorts. Viðsnúningur hefur nú orðið sérstaklega vegna styrks frá starfsmönnum Íslandsbanka upp á rúmlega milljón krónur. Söfnun starfsfólksins er liður í árlegri söfnun í þágu góðs málefnis.

Samkvæmt frétt bb.is þá tóku starfsmenn bankans til þessa ráðs að styrkja Sólstafi um eina milljón þar sem samtökin höfðu sótt um 720 þúsund króna styrk til Ísafjarðarbæjar en verið hafnað. Styrkurinn miðast við að svara kostnaði við húsnæði Sólstafa og mótframlags við viðtöl. Samkvæmt fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar er gert ráð fyrir að styrkja samtökin um 300 þúsund kónur. 

Vilja tryggja rekstur samtakanna með samstarfi

Samtökin hafa óskað eftir samstarfi við Ísafjarðabæ, Súðavíkurhrepp og Bolungarvíkurkaupstað. Lísbet Ólafar Harðardóttir, starfskona Sólstafa, segir að það tryggði rekstrargrundvöll samtakanna ef þau gætu verið í samstarfi við sveitarfélögin á norðanverðum Vestfjörðum. Þá kæmust þau hjá þeirri óvissu sem skapast reglulega vegna fjárhagslegs óöryggis. Samtökin hafa enn ekki fengið svör frá Súðavíkurhreppi. Lísbet telur samstarf af þessu tagi vera hag allra, þar sem að með því að tryggja starfsemi samtakanna þá sé einnig hægt að tryggja forvarna- og jafnréttisfræðslu í grunnskólum og menntaskólanum, sem samtökin bjóða einnig upp á, auk stuðningshópa og almenna þjónustu. Lísbet segir að fleiri félagasamtök hafi komið til máls við starfsfólk Sólstafa og kvenfélagið Hvöt í Hnífsdal ætli einnig að styðja starfsemina sem og Zonta-konur, „þetta ósýnilega afl kvenna," segir Lísbet.

Sólstafir sinna þjónustu við þolendur og aðstandendur þolenda kynferðisofbeldis í formi stuðningshópa og viðtala. Með rýmri fjárhag verður nú einnig opið hús vikulega á mánudögum á milli klukkan 16 og 18. Samtökin hafa aðsetur að Aðalstræti 24 á Ísafirði, en veita einnig símaviðtöl í síma 892 4743.