Viðskiptaþvingunum verði aflétt af Íran

16.01.2016 - 12:36
Erlent · Asía
epa04559811 US Secretary of State John Kerry, (R), speaks with Iranian Foreign Minister Mohammad Javad Zarif, (L), as they walk in the city of Geneva, Switzerland, 14 January 2015, during a bilateral meeting ahead of the next round of nuclear discussions,
Utanríkisráðherrar Írans og Bandaríkjanna ræðast við.  Mynd: EPA  -  KEYSTONE
Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, segir að viðskiptaþvingunum gagnvart Íran - vegna kjarnorkuáætlunar Teherans-stjórnar - verði aflétt í dag. Íranska ISNA fréttastofan hefur þetta eftir Zarif sem situr nú fund um nýjan kjarnorkusamning í Vínarborg.

Samkvæmt samningnum - sem gerður var í fyrra - eiga Íranar að binda svo um hnútana í sínum kjarnorkumálum, að viðsemjendur þeirra geti treyst því að þeir séu ekki færir um að framleiða kjarnorkuvopn og verði ekki færir um það í fyrirsjáanlegri framtíð. Í staðinn verði losað um viðskiptahöft sem Íranar hafa sætt áratugum saman af hálfu Vesturveldanna.

Búist er við því að fulltrúar Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar staðfesti á fundinum í dag að Íransstjórn hafi dregið úr umfangi kjarnorkuáætlunar sinnar og þannig staðið við sinn hluta samningsins. Haft er eftir Zarif að nú sé góður dagur fyrir írönsku þjóðina vegna þess að viðskiptaþvingununum verði aflétt.