„Viðreisn og BF fá ekki neitt úr samstarfinu“

10.01.2017 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata og Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna segja að stjórnarandstaðan muni veita nýrri ríkisstjórn mjög virkt, öflugt og gagnrýnið aðhald.

Ekkert leitað til stjórnarandstöðu um samstarf

Þær Svandís og Þórhildur Sunna sögðu í Morgunútvarpi Rásar 2 að stjórnarflokkarnir hafi ekki leitað til stjórnarandstöðunnar um neitt samstarf, stuðning  eða samstöðu einstökum málum.

„Það sem vekur athygli manns fyrst og fremst er að þessi svokölluðu kerfisbreytingarmál, hin stóru mál Viðreisnar fyrst og fremst og kannski Bjartrar framtíðar líka, eru meira og minna öll á ís," segir Svandís. „Þannig að þessir samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins eru ekki að fá neitt út úr þessu samstarfi annað en að setja mál í nefndir og í farveg til skoðunar o.s.frv., sama hvort það er peningastefnan, fiskur eða landbúnaður."

Hvað fá kjósendur flokkanna fyrir sinn snúð?

Þórhildur Sunna segir að svo virðist sem það hafi verið fyrsta markmið Viðreisnar og Bjartrar framtíðar að fara til Sjálfstæðisflokksins. „Nú enda þau með Sjálfstæðisflokknum í samstarfi þar sem þau hafa í raun og veru, án þess að ég hafi séð þennan stjórnarsáttmála en miðað við það sem maður hefur lesið, gefið upp á bátinn sín helstu baráttumál, sem eru til dæmis kvótinn og Evrópusambandið og láta bara aðra um það. Og fyrir hvað nákvæmlega? Ég spyr mig hvað Viðreisn og Björt framtíð og kjósendur flokkanna eru að fá út úr þessum pakkadíl með Sjálfstæðisflokknum."
 

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV