Viðræður um loftvarnarkerfi í S-Kóreu hefjast

04.03.2016 - 05:56
epa02322590 South Korean and U.S. Air Force officials pose in front of three F-15K fighters that arrived in South Korea from the United States on 08 September 2010 in Seoul, South Korea. The jets are the first batch of 21 F-15K fighters that Boeing is
Frá sameiginlegri heræfingu Suður-Kóreu og Bandaríkjanna.  Mynd: EPA  -  YONHAP NEWS AGENCY / HANDOUT
Viðræður hefjast í dag milli Suður-Kóreu og Bandaríkjanna um uppsetningu fullkomins eldflaugavarnarkerfis til að verjast hugsanlegum árásum Norður-Kóreu.

Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu segir að rætt verði um mögulegar staðsetningar, skiptingu kostnaðar og hvenær kerfið yrði sett upp, að sögn AFP fréttaveitunnar. Um er að ræða loftvarnarkerfi sem skýtur upp eldflaugum og sprengir óvinaflaugar annað hvort innan eða utan lofthjúps jarðar. Flaugarnar bera enga sprengjuodda heldur er treyst á hreyfiorku flaugarinnar til þess að eyða óvinaflauginni.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum áformuðu að ræða um uppsetningu loftvarnarkerfisins eftir tilraun Norður-Kóreu með langdræga eldflaug snemma í febrúar. Vegna andstöðu Rússa og Kínverja hafa formlegar viðræður ekki farið fram. Kínverjar telja að kerfið gæti verið notað til þess að fylgjast með eldflaugaskotum langt inni í Kína. Varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu segir eina verkefni loftvarnarkerfisins vera að fylgjast með vaxandi ógn frá Norður-Kóreu.