Viðlagatrygging bætir 20-25 tjón á Austurlandi

12.01.2016 - 16:32
Mynd með færslu
 Mynd: Eyðilegging á Stöðvarfirði  -  RÚV- Rúnar Snær Reynisson
Viðlagatrygging Íslands hefur farið yfir tilkynningar um tjón í vatnsveðrinu sem gekk yfir Austurland 28. desember og fárviðrinu 30. desember og telur að 20-25 mál falli undir bótaskyldu Viðlagatryggingar Íslands. Hún bætir tjón á sumum eignum vegna sjávarflóða og skriðufalla en ekki foktjón; þau falla á tryggingarfélög.

Í tilkynningu frá Viðlagatryggingu segir: „Tjón varð á fasteignum, lausafé og vatns- og fráveitum vegna vatnsflóða þann 28. desember. Tjón varð einnig á fasteignum, lausafé, fráveitum og hafnarmannvirkjum vegna sjávarflóða þann 30. desember. Vatnstjón varð á dvalarheimili þar sem 16 íbúðir skemmdust á einum tjónsstað. Fjöldi tjónsstaða endurspeglar því ekki endilega umfang tjónamatsins í heild.“ Þar er átt við tjón í leiguíbúðum eldri borgara í Breiðabliki í Neskaupstað.

Í tilkynningunni segir enfremur: „Í Neskaupstað er nær eingöngu um að ræða tjón vegna vatnsflóða sem orsökuðust af óhemju mikilli rigningu og snjóleysingum þann 28. desember 2015. Lækir í hlíðinni ofan og innan við bæinn flæddu margir yfir bakka sína. Í sumum tilfellum flæddu lækir vegna aurskriða sem féllu í þá og stífluðu. Tjón varð af þessum sökum á nokkrum fasteignum og í örfáum tilvikum á lausafé. Fráveitukerfið í Neskaupstað yfirfylltist og í það kom eitthvað af framburði. Minniháttar skemmdir urðu á kerfinu af þeim sökum. Pípa í vatnsveitu fór í sundur í botni lækjarfarvegar innan við bæinn og jarðvegur skolaðist frá pípunni á öðrum stað. Einnig skolaðist frá raf- og símalögnum á 1-2 stöðum inn í bænum. Ræsi í gegnum þjóðveginn að Neskaupstað stífluðust af framburði eða höfðu ekki undan vatnsflaumnum og mikil vinna fór fram af hálfu sveitafélagsins við að halda ræsum opnum. Sú vinna hefur vafalaust orðið til þess að lágmarka skemmdir á vegum og einnig til að forða tjóni sem ella hefði orðið á eignum sem vátryggðar eru hjá Viðlagatryggingu Íslands.

Á Eskifirði varð tjón fyrst og fremst vegna vatnsflóðs af völdum sjávar þann 30. desember 2015. Stíf austanátt gekk inn fjörðinn, loftþrýstingur var óvenju lágur og mikill áhlaðandi kom því til viðbótar við háa sjávarstöðu. Töluvert tjón varð á nokkrum fasteignum sem standa nærri fjöruborðinu. Hér er að mestu leyti um að ræða svokölluð sjóhús, sem sum teljast vera menningarminjar, en rétt er að taka fram að fasteignir og í sumum tilvikum sambyggðar bryggjur eru viðlagatryggðar sem slíkar, en ekki minjagildið. Í nokkrum tilvikum varð tjón á lausafé. Smávægilegt tjón varð á hafnarmannvirkjum og líklega er einnig smávægilegt tjón á fráveitukerfi.

Á Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði urðu tvö smávægileg tjón á svokölluðum sjóhúsum, sem standa alveg í fjöruborðinu. Á Stöðvarfirði var aðallega um að ræða foktjón og samkvæmt upplýsingum sem fulltrúar Viðlagatryggingar fengu á fundi með íbúum þar er misjafnt hvort fyrir hendi séu vátryggingar hjá almennu vátryggingarfélögunum gegn því tjóni, en eins og fram hefur komið nær viðlagatrygging ekki til foktjóna.

Matsstörf vegna tjóna sem vátryggð eru hjá VTÍ hafa þegar verið skipulögð og munu verkfræðistofurnar Verkís, Mannvit og Efla, sem allar hafa útibú á Austurlandi annast matsstörf fyrir hönd stofnunarinnar. Byggingarverkfræðingur VTÍ annast skipulag og samræmingu matsstarfa. Öllum tilkynntum málum hefur þegar verið vísað í tjónamat og eru matsstörf þegar hafin. Áætlað er að tjónamati verði lokið og matsskýrslur kynntar fyrir eigendum, eigi síðar en um miðjan febrúar 2016,“ segir í tilkynningu frá Viðlagatryggingu Íslands.