Viðbúnaðargeta vegna hryðjuverka takmörkuð

23.03.2016 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Viðbúnaðargeta lögreglunnar er takmörkuð ef hryðjuverk yrði framið hér á landi. Lögreglan er fámenn og einnig skortir búnað. Þetta segir Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra. Hann var á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun.

Vástigsnefnd ákvað í gær að ekki væri ástæða til að hækka vástig hér á landi vegna hryðjuverkanna í Brussel heldur yrði viðbúnaður aukinn á Keflavíkurflugvelli. Þar er nú vopuð lögregla með sprengjuleitarhund og verður metið daglega hvort svo þurfi að vera áfram.  

Jón Bjartmarz segir að samstarf milli löggæslu og öryggisstofnana í Evrópu hafi aukist verulega á undanförnum árum. Europol hafi verið sett á stofn til að tryggja upplýsingaskipti og samvinnu og Eurojust til að setja upp sameiginleg rannsóknarteymi.  Það hafi Frakkar og Belgar nýtt sér undanfarna mánuði.  

Breytt staða í Evrópu.

„Staðan í Evrópu hefur gjörbreyst frá því sem var hér á árum áður en á móti kemur að það er ekki lengur landamæraeftirlit á milli Schengen landanna þannig að fólk á greiða för milli landanna.“

Aldrei verði hægt að koma í veg fyrir allar hryðjuverkaárásir. Meiri líkur eru á því að öryggisstofnanir geti komið í veg fyrir hryðjuverk ef um hópa eða sellur er að ræða.  Þá er líklegra að þau uppgötvist í tæka tíð.

„Það er öllu erfiðara að eiga við þegar um einstaklinga er að ræða sem hafa fyllst öfgaskoðunum og löngun til að fremja voðaverk bara með því að vera á internetinu og eru jafnvel í samskiptum við hryðjuverkamenn  í Miðausturlöndum á Skype. Sá veruleiki er eitthvað sem er nýtt og er í rauninni alveg með ólíkindum.“

Ungmenni hafi gengið til liðs við Isis og jafnvel hafið undirbúning hryðjuverka í sínu heimalandi. Allt annað ástand er í Evrópu en var fyrir 5 árum. 

„Hryðjuverkaógnin í Evrópu hefur aukist verulega eins og m.a. greiningardeild embættis ríkislögreglustjóra hefur bent á í sínu hættumati  en menn geta einnig kynnt sér í hættumatsskýrslum Europols. Niðurstaðan er sú að hryðjuverkaógnin hefur sennilega sjaldan eða aldrei verið eins mikil í Evrópu eins og hún hefur verið síðustu árin.“ 

 

epa05218693 Belgian security forces seal off an area during an anti-terror operation in the Molenbeek neighborhood of Brussels, Belgium, 18 March 2016. Media reports claim that fugitive terror suspect Salah Abdeslam has been wounded but arrested alive
 Mynd: EPA

 

Ef hryðjuverk yrði framið á Íslandi?

Lögregluyfirvöld í Evrópu hafa átt erfitt með að manna alla pósta vegna hryðjuverkaógnar og hafa fengið hermenn sér til aðstoðar.  Ef framið yrði hryðjuverk hér á landi er hvorki til her né nægilega margir lögreglumenn. 

Jón segir að ef hryðjuverk yrði framið á Íslandi þyrfti að setja vopnaða varðgæslu við marga staði á sama tíma.

 „Við erum búnir að benda á það að viðbúnaðargeta lögreglunnar á þessu sviði er takmörkuð vegna þess hvað lögreglan er fámenn og eins skortir búnað.“

Lögreglan hafi bent á þetta undanfarin misseri, ekki bara út af hryðjuverkaógninni heldur einnig út af auknu álagi löggæslunnar. 

„Við sjáum hér gríðarlega fjölgun ferðamanna, mikið aukið álag á landamæri og mikla þörf á því að hafa svokallað Schengeneftirlit innanlands. Við sjáum mjög mikið aukið álag vegna ferðamanna, umferðar og  slysa. Þannig að við teljum mjög brýnt að það verði stórfjölgað í lögreglunni ekki bara út af hryðjuverkahættu heldur út af öllum þessum verkefnum.“

 

„Eins og staðan er núna yrðum við að forgangsraða mjög grimmt hvar og hversu marga staði við getum mannað. En það er alveg ljóst að viðbúnaðargetan á þessu sviði er allt of takmörkuð.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV