Viðbúið að mansal aukist hér á landi

26.02.2016 - 19:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Viðbúið er að mansal aukist á Íslandi, að mati dansks lögfræðings og fyrrverandi þingmanns. Ekki sé ólíklegt að fleiri tilvik komi upp þar sem fólki er haldið föngnu og látið vinna.

 

Line Barfod er lögfræðingur og sat á þingi í Danmörku fyrir hinn vinstri sinnaða Einingarlista. Hún flutti fyrirlestur í Norræna húsinu á vegum Vinstri grænna, Norræna félagsins og hússins.

Margir voru slegnir óhug þegar lögregla frelsaði tvær konur úr kjallara íbúðarhúss í Vík í Mýrdal fyrir rúmri viku en þar höfðu þær verið látnar vinna. Line óttast að þetta tilvik sé ekki einstakt hér á landi. „Þau gætu auðveldlega verið fleiri. Við sjáum bæði í Danmörku og víðar þegar við förum að skoða hlutina, þá finnast fleiri tilfelli,“ segir Line.

Hún segir að mansal viðgangist í kynlífsiðnaðinum, sjávarútvegi, þrifum í heimahúsum, byggingariðnaði og fleiru. Nútímaþrælahald sé skipulögð glæpastarfsemi. Margir þeirra sem búa í fátækum löndum vilji koma til efnameiri landa til að vinna en lendi í klóm glæpamanna sem taki af þeim vegabréfið, þvingi þá til vinnu og hóti jafnvel ættingjum í heimalandinu verði ekki farið að vilja þeirra.

Almenningur geti leitað vísbendinga nútímaþrælahalds. „Ef eitthvað er mjög ódýrt og virkar miklu ódýrara en vara keppinautarins þá er það yfirleitt of ódýrt,“ segir Line. 

Hún óttast að mansal eigi eftir að aukast hér á landi. „Það er jú hætta á því af því það er svo mikil fátækt í heiminum og svo margt fólk í hættu og með öllu flóttafólkinu frá Miðausturlöndum þá fjölgar þeim sem eru í hættu á að lenda í þrældómi. Það eykur hættuna á því að fleiri af þeim lendi á Íslandi. Það koma einnig þrælar frá Víetnam og Taílandi til Norðurlanda og það er einnig hætta á að þeim fjölgi á Íslandi. Það er hægt að græða ótrúlega mikla peninga á þrælahaldi. Svo lengi sem ekki er mikil hætta á að lögregla upplýsi þrælahald og þrælahöldurum sé refsað, þá verður alltaf til fólk sem er reiðubúið til að hneppa aðra í þrældóm,“ segir Line. 

Hún telur að hvergi í heiminum sé nóg gert til að stöðva mansal. Það hafi þó verið hægt að afnema þrælahald á sínum tíma. „Og það ætti að vera hægt að stöðva mansal í dag. Engu að síður eru fleiri þrælar í heiminum í dag en voru á þeim tíma þegar þrælahald var leyfilegt,“ segir Line.