Viðbótarframlag í séreignarsjóð

13.06.2017 - 12:59
Iðgjald atvinnurekenda í lífeyrissjóði fólks á almennum vinnumarkaði hækkar 1. júlí næstkomandi í samræmi við ákvæði kjarasamninga ASÍ og SA og geta sjóðsfélagar látið viðbótina renna í tilgreindan séreignarsjóð. Að ári verða heildariðgjöldin komin í 15,5% og þar af verða 3,5% viðbótin til ráðstöfunar í séreignarsjóð hvers og eins.

Sjóðsfélagar geta farið að taka út þess tilgreindu sjóðseign fimm árum fyrir starfslok. Þá erfist sjóðseignin, eins og gilt hefur um séreignarsparnað. Þorbörn Guðmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, ræddi þessar breytingar á Morgunvaktinni á Rás 1. Hann áréttaði að sjóðsfélagar yrðu að tilkynna sínum sjóði ef þeir vildu leggja hluta iðgjalda í þennan nýja sjóð fyrir tilgreindan séreignarsparnað. Að öðrum kosti rennur viðbótin inn í samtrygginguna.

„Þetta gerir það að verkum að ábyrgðin er færð yfir á einstaklinginn – hvernig þessu er ráðstafað.“

Fyrirkomulagið tekur gildi 1.júlí að öllu óbreyttu og þá geta sjóðsfélagar gert samninga um þessa ráðstöfun við sinn lífeyrissjóð, öfugt við það sem gildir um fyrri séreignarsparnað, sem sjóðsfélagar sömdu um við atvinnurekendur. Síðan getur fólk breytt fyrirkomulaginu hvenær sem er. Það sem vinnst með þessu er að valfrelsi um ráðstöfun iðgjalda er aukið, meiri sveigjanleiki verður á útborgun við starfslok, og séreignin erfist – en hverfur ekki inn í samtrygginguna eins og meginþorri skylduiðgjaldsins.

„Þetta er auðvitað fyrst og fremst hugsað til að bæta lífeyrisstöðu einstaklinganna. Ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að taka út þennan sparnað til að nýta í eitthvað annað, eins og fjárfestingar eða húsnæði, heldur til að bæta stöðuna þegar fólk er komið á lífeyrisaldur.“ 

Þegar ákvæðin um viðbótarframlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði hafa að fullu tekið gildi verða heildariðgjöldin komin í 15,5% (atvinnurekendur 11,5% og launþegar 4%). Mörgum þykir þetta hátt hlutfall, sérstaklega gagnvart ungu fólki sem hefði þörf á meira fé til ráðstöfunar. „Ég held að það sé enginn vilji til að fara með þetta hlutfall hærra. Þetta er auðvitað ansi stór hluti af ráðstöfunartekjunum,“ segir Þorbjörn Guðmundsson.  En er líklegt að þrýst verði á að hærra hlutfall lífyeissparnaðar verði í tilgreindri séreign, sem fólk ræður meira yfir? „Mér þykir ekki ólíklegt að sú umræða haldi áfram. Það verður áhugavert að sjá hversu stór hópur fólks nýtir sér þetta. Menn hafa verið að kalla eftir þessu valfrelsi og það verður gaman að sjá hversu margir nýta sér þetta.“

Á Morgunvaktinni ræddi hann grundvöll samtryggingarkerfisins og samspilið með almannatryggingakerfinu. Það blasir við að fólk er almennt sáróánægt með skerðingarákvæði í almannatryggingakerfinu og bölvar þá kannski lífeyriskerfinu þegar niðurstaða um heildargreiðslur liggur fyrir. Formaður Landssamtaka lífeyrissjóða kannast vel við þetta: „Þetta samspil við almannatryggingar er lífeyrissjóðum mjög erfitt. Öll neiðkvæðnin gagnvart almannatryggingum beinist að lífeyrissjóðunum sem hafa ekkert með þetta að gera. Það er ekkert fordæmi fyrir þessum tekjutengingum í nágrannalöndum okkar. Það er algjört einsdæmi að tekjutengingar séu svona miklar eins og á Íslandi. Ég held að menn hafi gengið alltof langt í þessu.“ Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa talað um að breyta þessu, en ekki er gert ráð fyrir að neitt breytist fyrr en á seinni hluta kjörtímabilsins. „Ég vona bara að menn stígi þar einhver veruleg skref. Þetta er auðvitað óþolandi. Ef þú kemur með sæmilega lífeyriseign eftir langa starfsævi að þá séu skorin burt framlög úr almannatryggingakerfinu. Fólk er ósátt við að hafa greitt skatta alla sína ævi og standa svo frammi fyrir þessu. Geta eiginlega engan veginn bætt afkomu sína. Vegna þess að þessar miklu tekjutengingar snúa líka að atvinnutekjum.“

 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi