„Við þurfum að fá VEGGINN“

27.08.2017 - 17:50
epaselect epa06004460 US President Donald J. Trump announces that the US is withdrawing from the Paris climate accord during a Rose Garden event at the White House in Washington, DC, USA, 01 June 2017.  EPA/SHAWN THEW
 Mynd: EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti krafðist þess í dag að Bandaríkjaþing fyndi leið til að fjármagna vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Hann segir landið gróðrarstíu glæpa og því sé veggurinn nauðsynlegur.

Forsetinn gerði vegginn milli Bandaríkjanna og Mexíkó að umtalsefni sínu á Twitter í dag. Í færslu sagði forsetinn að þar sem Mexíkó sé ein mesta glæpaþjóð heims þurfi Bandaríkin að fá VEGGINN, sem forsetinn skrifar í hástöfum. Hann heldur áfram og segir að Mexíkó muni borga fyrir vegginn með endurgreiðslum eða öðrum hætti.

Í kjölfarið segir forsetinn að Bandaríkin séu aðili að NAFTA, fríverslunarsamningi Norður-Ameríku, sem hann segir innan sviga að sé versti viðskiptasamningur sem hafi nokkurn tíma verið gerður. Hins vegar gangi illa að semja upp á nýtt við Kanada og Mexíkó, sem hann segir vera mjög erfið. Því gæti að hans mati verið þörf á að segja upp samningnum. 

Forsetinn hefur hótað að verði þingið ekki við kröfum hans um að finna fjármagn til að reisa vegg milli Bandaríkjanna og Mexíkó muni hann stuðla að því að öll opinber stjórnsýsla lamist. Þessi fjármögnun byggingarinnar væri tímabundin, því hann muni krefja Mexíkó um kostnaðinn. Þarlend stjórnvöld hafa látið sér fátt um finnast um þessar kröfur forsetans.

Gunnar Dofri Ólafsson