„Við erum ekki hræddir við dauðann“

09.04.2017 - 12:37
Rússar háðu tvö mannskæð stríð í Téténíu í Kákasusfjöllum á tíunda áratug síðustu aldar. Það var þó ekki í fyrsta sinn sem Rússar og Tétenar elduðu grátt silfur. Það hafa þjóðirnar tvær gert frá því þær urðu fyrst varar hvor við aðra aftur í öldum.

Í ljósi sögunnar fjallaði um sögu Téténíu og téténsku þjóðarinnar og samskipti hennar við risavaxna nágranna sinn til vesturs, Rússland. Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.

Stolt fjallaþjóð

Tétenar eru ein af ótal ólíkum þjóðum sem búið hafa í og við Kákasus-fjallgarðinn öldum saman. Téténar hafa ríka hernaðarmenningu og hafa ætíð lagt áherslu á að vernda heimahaga sína með öllum leiðum, og tókst þeim meðal annars tvisvar að hrinda innrás Mongóla fyrr á öldum.

Á nítjándu öld var Rússneska keisaradæmið að breiða úr sér til austurs og fór að girnast Kákasus-svæðið. Að leggja það undir sig reyndist þó þrautin þyngri. Téténar og fleiri stoltar fjallaþjóðir vörðust rússneska innráshernum af krafti, og það tók að endingu Rússa marga áratugi að sölsa undir sig fjallgarðinn.

Öll þjóðin flutt nauðug burt

Þegar Sovétríkin urðu til í upphafi tuttugustu aldar varð Téténía, sem allur Kákasus-fjallgarðurinn, hluti af þeim.

Í miðri seinni heimsstyrjöld hlutu Téténar svo sömu sorglegu örlög og fleiri smáþjóðir innan Sovétríkjanna — mörg hundruð þúsund Téténar voru reknir burt af heimmilum sínum og fluttir nauðugir til Mið-Asíu.

Í ljósi sögunnar hefur áður fjallað um það þegar sovésk yfirvöld ráku Krímtatara nauðuga frá Krímskaga til Úsbekistan.

Lýstu yfir sjálfstæði

Á sjötta áratuginum fengu Téténar loks að snúa aftur heim. Þegar Sovétríkin féllu svo í byrjun tíunda áratugarins gerðu Téténar tilraun til þess að lýsa yfir sjálfstæði eins og margar aðrar þjóðir Sovétríkjanna gerðu um sama leyti.

Téténía var þó ekki sjálfstætt Sovétlýðveldi eins og til dæmis Eistland og Georgía, heldur formlega séð hluti af Rússlandi. Og Rússar urðu ekki sérstaklega hrifnir af sjálfstæðistilburðum Téténa — og sendu að lokum rússneska herinn að kveða þá niður.

Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09.05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18.10. Finna má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV.

 

Mynd með færslu
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður
Í ljósi sögunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi