„Við erum ekki að passa jörðina nógu vel“

07.09.2017 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd: rúv  -  Rúv
„Við erum búin að hafa svo miklar áhyggjur af fólkinu okkar, búin að vera að hringja síðan í gærkvöldi og snemma í morgun. Það er búið að rigna svo mikið frá í gærkvöldi.“ Þetta segir Evelyn Rodriguez frá Santo Domingo, höfuðborg Dóminíska lýðveldisins. Margir hafa yfirgefið heimili sín en fólkið hennar Evelyn er ekki þar á meðal. „Við erum bara að fylgjast með og sjá hvað gerist.“

 

Irma hefur haldið feiknastyrk í meira en sólarhring. Hún hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar á Barbúda og St. Martin-eyju. Ekki er gert ráð fyrir að fellibylurinn skelli af fullum þunga á Dóminíska lýðveldinu og Haítí,  hann er nú skammt norðan við eyjarnar.

 

epa06188536 Residents line up for supplies in a supermarket, in Santo Domingo, Dominican Republic, 06 September 2017. Dominican officials ordered an evacuation of vulnerable areas as category 5 Hurricane Irma moves into the area.  EPA-EFE/Roberto Guzman
 Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Á þessari mynd frá í gær sjást íbúar í Santo Domingo birgja sig upp af nauðsynjum.

 

Kemur illa við fátækt fólk

Evelyn segir mannvirki í Dóminíska lýðveldinu misvel í stakk búin til þess að mæta fimmta stigs fellibyl á borð við Irmu. Stórhýsi í höfuðborginni séu sterk en fátækt fólk búi í lélegum timburhúsum. „Þetta getur komið mjög illa við fátækrahverfi og líka nálægt ströndinni. Öldurnar eru svo háar og miklar og ekki gott að vera þar nálægt núna.“

Örugg eins og er

Fjölskylda pabba Evelyn er í höfuðborginni. „Já það má segja að við séum örugg eins og er en fjölskylda mömmu er fyrir norðan, það er ekki eins gott ástand þar og ég á mikið af ættingjum út um alla eyju og allir hafa miklar áhyggjur.“ 

Upplifði sterka bylji

Evelyn hefur búið á Íslandi frá árinu 2001. Hún upplifði sterka fellibylji þegar hún bjó í Dóminíska lýðveldinu. Georg sem gekk yfir árið 1998 var verstur. „Árið 1998 var rosalega stór fellibylur sem eyðilagði mjög mikið í Hondúras, Mið-Ameríku, kom yfir Púertó Ríkó, Kúbu og okkur. Það voru miklar skemmdir og margir sem dóu hjá okkur þá. En við náðum okkur upp úr þessu og það er bara að bíða og undirbúa sig fyrir það sem kemur núna.“

Reyna að koma í veg fyrir manntjón

En hvernig finnst henni stjórnvöld hafa staðið sig núna, er mikill viðbúnaður? „Já, ég hef verið að fylgjast með fréttum og það er mikið búið að tala við lögregluna, Rauða krossinn, spítalana. Allir eru að undirbúa sig til að hjálpast að ef það kemur stór og mikil skemmd hjá okkur. Skólar, kirkjur og stórar byggingar sem eru góðar til að hafa fólk þegar húsin skemmast eru að undirbúa sig, með mat og rúm svo fólk geti gist þar og verið ef þetta stendur lengi, mikil rigning, ef áin tekur brúna og veginn og allt fer.“  

Hún segir að viðbúnaðurinn sé kannski ekki jafngóður alls staðar en fólk reyni að hjálpast að. Forgangsröðunin sé skýr; það skipti öllu að forðast manntjón, húsin megi byggja aftur. „Allavega að það séu ekki að deyja svo margir eins og hefur gerst þegar svona stórir fellibyljir koma yfir.“

„Verður bara verra“

Evelyn tengir Irmu við loftslagsbreytingar. „Við vitum það öll að heimurinn og náttúran er að gefa okkur til baka því við erum ekki að passa vel upp á jörðina. Við vitum að við pössum ekki vel upp á hana er þetta að skemma og skemma alls staðar út um heiminn. Það bara koma verri fellibyljir og jarðskjálftar, norðurpóllinn og suðurpóllinn bráðna og við vitum ekki hvað gerist meir.“ 

En tengja allir í heimalandi hennar þennan ofsa í veðurfarinu við loftslagsbreytingar? „Kannski ekki, en það er svo mikil mengun og alls staðar en fátæka fólkið lifir kannski bara sínu daglega lífi og veit ekki hvað er að gerast út um allan heim.“

Áfram sterk í dag

Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna gerir ráð fyrir því að Irma verði áfram fimmta eða fjórða stigs fellibylur í dag. Hún stefnir nú til norðvesturs, á Turk- og Caicoseyjar og hluta Bahama-eyja. Gert er ráð fyrir að hún taki skarpa beygju norður yfir Flórídaskaga á aðfaranótt laugardags.

 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi