„Við erum bara harmi slegnir yfir þessu“

19.03.2017 - 11:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  www.smabatar.is
Grásleppuvertíðin hefst á morgun og eru sjómenn ósáttir við lágt verð á grásleppu og hrognum sem sjávarútvegsfyrirtæki bjóða. Á síðustu vertíð var verð sem greitt var með því lægra sem þekkst hefur og hafa kaupendur boðið verð út frá því. Einar Sigurðsson sjómaður segir að sjómenn séu harmi slegnir og að þetta fyrirkomulag sé að drepa atvinnugreinina.

„Við erum bara harmi slegnir yfir þessu verði og hafa ekkert um það að ráða um hvaða verð við erum að fá. Eins og staðan er núna er mjög gott árferði upp á það að það ætti að vera gott verð á þessu. Það eru ekki til nein hrogn í landinu og ekki nein grásleppa heldur þannig það liggur fyrir að það er hægt að selja þetta einn tveir og þrír allt saman.“ 

Einar segir að þar af leiðandi ætti að vera hægt að fá ögn skárra verð. „Við megum ekki gleyma því að það er búið að vera mikið af launahækkunum í öllum stéttum landsins sem er bara gott en við sitjum alltaf eftir eins og í sambandi við þessar veiðar með 30- 40-50% verðlækkun á okkar afurðum á milli tveggja þriggja ára. Þetta stenst bara ekki.“

Verð með því lægra sem þekkist

Kaupendur lýsa allir miklum áhuga á viðskiptum. Aðeins eru þó tveir af væntanlegum kaupendum búnir að tilkynna hvað þeir hyggjast greiða fyrir grásleppuna á vertíðinni.  Annar þeirra ætlar að greiða 110 kr/kg af heilli grásleppu, en hinn 150 kr/kg.  Báðir hafa tilkynnt að þetta séu byrjunarverð og gæti breyst þegar líður á vertíðina, en þá aðeins til hækkunar. Einar segir að koma þurfi grásleppunni inn í verðlagsstofu skiptaverðs.

„Það er mitt mat að við eigum að koma þessari fisktegund sem heitir grásleppa inn í verðlagsstofu skiptaverðs þar sem kaupendur og seljendur koma saman og finna út hvað er rétta verðið á afurðinni. Þetta er eina tegundin sem er ekki inn í verðlagsstofu skiptaverðs þannig að menn geta ráðið til sín menn á grásleppu án þess að vera með neitt lágmarksverð á áhöfn, þetta er náttúrulega bara ekkert í takt við tímann. Þessu þarf að breyta.“

Þetta fyrirkomulag sé hægt og rólega að drepa atvinnugreinina. „Ég er furðu lostinn yfir því að hrognakaupendur skuli ekki átta sig á því að það er engin nýliðun í greininni. Hún er ekki uppörvandi fyrir menn að byrja og starta því að veiða grásleppu vegna þess að það er ekki nógu mikil afkoma sem menn hafa út úr þessu. Þannig það eru alltaf að fækka veiðimönnum sem veiða þetta og stunda þetta og það er bara út af lélegri afkomu.“ segir Einar.

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV