VG: Vegið að rammaáætlun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flokksráð VG samþykkti á fundi sínum í gær ályktun, þar sem fyrirhugaðar breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar rammáætlunar eru harðlega fordæmdar. Í ályktun flokksráðsins segir að breytingarnar séu augljóslega gerðar í því skyni að hafa að engu niðurstöðu rammaáætlunar 2. Breytingarnar gefi Landsvirkjun færi á að krefjast endurmats á virkjanakostum svæða sem eru í verndunarflokki, með það að markmiði að færa einhver þeirra í nýtingarflokk.

Er Norðlingaalda tekin sem dæmi um þetta, en hún er í verndarflokki. Er fullyrt að með því að kalla svæðið Kjalölduveitu og breyta lítillega útmörkum svæðisins sé Landsvirkjun í raun að reyna að fá hina vernduðu Norðlingaöldu í nýtingarflokk, og þetta liggi meðal annars til grundvallar tillögum umhverfisráðuneytisins á starfsreglum verkefnisstjórnarinnar.

Þessi vinnubrögð eru fordæmd og sögð fara í berhögg við lög um rammaáætlun. „Ljóst er að verndarsjónarmið eru að engu höfð og mæta afgangi í öllum verkum núverandi ríkisstjórnar," segir í niðurlagi ályktunarinnar.

Landvernd gagnrýndi fyrirhugaðar breytingar á starfsreglum verkefnisstjórnar einnig harðlega í gær og sagði allt rammaáætlunarferli í uppnámi ef af þeim verður. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, gagnrýndi sérstaklega aðkomu Landsvirkjunar að breytingunum og segir hana dæmi um spillingu í stjórnkerfinu af versta tagi.  

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV