Vetnissprengja líklega sprengd í N-Kóreu

06.01.2016 - 03:00
Erlent · Asía
epa05089344 An undated photo published by the North Korean Central News Agency (KCNA) supplied by Yonhap News Agency (YNA) on 06 January 2016 shows North Korea's top leader Kim Jong-un sign an order for the country to conduct a hydrogen bomb test.
Kim Jong-un undirritar samþykki sitt við tilraunina.  Mynd: EPA  -  KCNA via YONHAP
Vetnissprengja var sprengd á tilraunasvæði í Norður-Kóreu í nótt að sögn stjórnvalda í Norður-Kóreu. Jarðskjálfti mældist 5,1 að styrk og var miðja skjálftans mjög nálægt kjarnorkutilraunasvæði landsins. Boðað hefur verið til neyðarfundar í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag.

Í yfirlýsingunni, sem lesin var í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu, segir að vetnissprengjan sé liður í hernaðaráætlun stjórnvalda. Með fullkomlega vel heppnaðri tilraun sé hægt að telja N-Kóreu til þróaðri kjarnorkuríkja, sagði þulurinn. Notast var við smækkaða útgáfu í tilrauninni. „Nýjasta tilraunin, sem er algjörlega byggð á okkar tækni og mannafli, sannar að tæknilegur aðbúnaður sem nýlega var hannaður er nákvæmur og hún sýndi á vísindalegan hátt hvaða áhrif smækkuð útgáfa vetnissprengjunnar hafði,“ sagði jafnframt í yfirlýsingunni.

Vetnissprengja er sögð réttlát sjálfsvörn gegn fjölmörgum risastórum kjarnorkuvopnum Bandaríkjanna. Tekið er skýrt fram að Norður-Kórea sé friðelskandi ríki. Allt hafi verið gert til þess að tryggja frið á Kóreuskaga og öryggi tryggt gegn kjarnorkuvánni frá Bandaríkjunum. Norður-Kórea sé ábyrgt kjarnavopnaríki, stjórnvöld verði aldrei fyrri til þess að beita kjarnavopnum í átökum. 

Fyrstu vísbendingar á jarðskjálftamælum

Á vefsíðu jarðskjálftavaktar Kína er sagt að skjálftinn sé að öllum líkindum af völdum sprengingar. Á mælum bandarísku jarðfræðistofnunarinnar mældist skjálftamiðjan í norðaustur-hluta landsins, alveg við Punggye-ri kjarnorkutilraunasvæðið. Þá segja veðurstofan í Suður-Kóreu og stjórnvöld í Japan að skjálftinn sé nánast örugglega af manna völdum.

Ef grunur erlendra ríkja reynist á rökum reistur er um fjórðu kjarnorkutilraun Norður-Kóreu að ræða, þá fyrstu frá árinu 2013. Boðað var til neyðarfundar í forsetahöllinni í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu.

Gefið í skyn í desember

Kim Jong-Un gaf það í skyn í desember að Norður-Kórea hefði yfir að ráða vetnissprengju, en leiðtogar annarra ríkja létu það sem vind um eyru þjóta. Vísindamenn við John Hopkins háskólann sáu á gervihnattamyndum í desember að verið væri að grafa ný göng á Punggye-ri svæðinu. Þeir sögðu það þó ekki endilega merki þess að kjarnorkutilraunir yrðu gerðar á næstunni.

Efasemdir sérfræðinga

Bruce Bennett, sérfræðingur í varnarmálum, segir sprengjuna líklega hafa verið á stærð við þá sem Bandaríkin vörpuðu á Hiroshima, en þetta hafi ekki verið vetnissprengja. Sprengingin hefði orðið tíu sinnum öflugri ef svo hefði verið. James Acton yfirmaður kjarnorkuáætlunarsviðs friðarstofnunar Carnegie, tekur undir orð Bennetts og segir ólíklegt að um vetnissprengju hafi verið að ræða.

Leyniþjónusta Suður-Kóreu efast um að sprengingin hafi verið af völdum vetnissprengju. Veðurstofa S-Kóreu segir enga geislamengun hafa mælst eftir yfirlýsingu stjórnvalda í Norður-Kóreu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV