Vesturbæingar súrir yfir vínleysi Borðsins

19.04.2017 - 14:06
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd  -  RÚV
Fjölmargir hafa lagt orð í belg á samfélagsmiðlum og eru ósáttir vegna þeirrar ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að synja veitingastaðnum Borðinu við Ægisíðu um leyfi til að reka veitingastað í flokki II sem myndi þá gefa honum leyfi til að reiða fram vín með matnum og hafa lengur opið. „Computer says no“ segir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

RÚV greindi frá því í morgun að eigendur veitingastaðarins hefðu kært ákvörðun borgarinnar til úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála sem síðan hafnaði henni á fundi sínum fyrir páska.  Ægisíða væri ekki aðalgata og veitingastaðir í flokki tvö væru ekki leyfðir nema við skilgreindar aðalgötur og nærþjónustukjarna.

Rakel Eva Sævarsdóttir, einn eigandi Borðsins, deildi frétt RÚV á Facebook og sagði ákvörðun borgarinnar einkennast af mismunun og skipulagsklúðri. „Þið sem þekkið til Borðsins vitið að okkur langar einungis til að bjóða viðskiptavinum okkar upp á gott vínglas eða bjór með matnum! Saklausara gæti það ekki verið.“

Hildur Sverrisdótir, fyrrverandi borgarfulltrúi og núverandi þingmaður, var ein þeirra sem tjáði sig um málið.  „Computer says no á kostnað sjálfbærari hverfa og betri borgarbrags,“ skrifar þingmaðurinn á Facebook-síðu sína.

Lif Magneudóttir, borgarfulltrúi meirihlutans, segir þetta „ógeðslega glatað“. Þarna hefði borgin þyrft að endurskoða afstöðu sína til rekstrar á vetingastöðum inn í hverfum. 

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, bogarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, bendir á að bæði Kaffi Laugalækur og Kaffi Vest séu með vínveitingaleyfi.  Við reyndar litla hrifningu Sverris Bollasonar, sem á sæti í umhverfis-og skipulagsráði. „Æ kræst Guðfinna, ekki sökkva þér niður á lægsta planið. Það eru mjög skýr munur á skipulagsskilmálum þessara staða,“ skrifar Sverrir.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV