Vestmannaeyjabær í hart gegn Landsbankanum

26.02.2016 - 19:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vestmannaeyjabær ætlar í hart gegn Landsbankanum, Fjármálaeftirlitinu og Bankasýslunni vegna yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Vestmannaeyja. Bærinn vill nýtt verðmat á Sparisjóðnum. Bærinn vill að dómkvaddir matsmenn fari yfir verðmæti sjóðsins. Fallist Landsbankinn ekki á það verði höfðað dómsmál.

Tæpt ár er síðan Sparisjóður Vestmannaeyja var sameinaður Landsbankanum eftir að stjórnendum sjóðsins mistókst að uppfylla skilyrði Fjármálaeftirlitsins um að bæta eiginfjárstöðu hans um milljarð. Stjórn sjóðsins fékk viku til að útvega aukið fé. Fyrrverandi útibússtjóri sparisjóðsins á Selfossi var kærður til lögreglu vegna gruns um sjö milljóna króna fjárdrátt og umboðssvik. Um hundrað milljónir króna eða rúm tíu prósent af eiginfé voru lánaðar til fyrirtækja sem ekki voru starfandi. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Suðurlandi er rannsókn á málum útibússtjórans ólokið.

Vestmannaeyjabær átti hlut í Sparisjóðnum og hefur bæjarstjórn ákveðið að kanna möguleikann á málaferlum á hendur Landsbankanum fyrir að neita bænum um upplýsingar um verðmat á hlut hans í sjóðnum. „Því miður er staðreyndin að verða sú að til þess að fá úr því skorið hvert verðmæti eignasafn Sparisjóðsins var þegar hann var yfirtekinn af ríkinu þá þurftum við sennilega að fara þá leið,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Landsbankinn hefur hafnað beiðni Vestmannaeyjabæjar um að afhenda upplýsingarnar. Elliði segir óvíst hvort eignir Sparisjóðsins hafi verið teknar yfir á undirverði. „Sparisjóðurinn átti hlut í Borgun þegar ríkið yfirtók hann og það er alveg ljóst og öllum sem fylgst hafa með fréttum undanfarinna vikna er ljóst að sá eignarhlutur sem Landsbankinn yfirtók í Borgun í gegnum Sparisjóð Vestmannaeyja er mun meira virði í dag heldur en þáverandi eigendur fengu greitt fyrir,“ segir Elliði.

Hann telur rétt að dómkvaddir matsmenn fari yfir verðmæti hluta Vestmannaeyinga í Sparisjóðnum. Bærinn skoðar einnig málaferli á hendur Fjármálaeftirliti og Bankasýslunni fyrir að gefa stjórn Sparisjóðsins aðeins vikufrest til að útvega aukið eigið fé. Elliði segir að kvartað verði til umboðsmanns Alþingis vegna málsins og fjármálaráðuneytisins. „Og Landsbankinn er náttúrulega í 100% eigu íslenska ríkisins og það þarf að gæta mjög vel að meðalhófi og réttarfarslegum reglum og við erum ekki sannfærð um að það hafi verið gert í þessu tilviki og þess vegna viljum við láta skoða það,“ segir Elliði.