Vestmannaeyjabær áfram í SASS

02.03.2016 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bæjarráð Vestmannaeyja telur að sveitarfélagið þurfi ekki að svo stöddu að segja sig úr SASS, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Þetta er bókað í fundargerð ráðsins í gær. Fyrir réttu ári fól ráðið bæjarstjóra Vestmannaeyja að gera hagkvæmniathugun á aðild að samtökunum og mögulegri úrsögn með það fyrir augum að efla atvinnuþróun og nýsköpun í héraði.

Á fundinum kom fram að umtalsverð breyting hafi orðið á starfsemi SASS á undanförnum vikum, sem miði að því að efla staðbundna atvinnuþróun og nýsköpun  á starfssvæði samtakanna. SASS hafi nú gert þjónustusamning við Þekkingarsetur Vestmannaeyja sem geri ráð fyrir að ráða atvinnu og nýsköpunarfulltrúa með aðsetur og starfsemi í Eyjum. Í fundargerðinni segir að bæjarráðið telji þessar breytingar skref í rétta átt og það mæti óskum sínum um eflingu atvinnuþróunar og nýsköpunar. Því feli „fyrirliggjandi hagkvæmniathugun ekki í sér þörf fyrir úrsögn að svo stöddu“. Í fundargerð bæjarráðs, þar sem bæjarstjóra var falið að gera áðurnefnda hagkvæmniathugun, kemur fram að aðild sveitarfélagsins að SASS kosti það 11,5 miljónir króna á ári.

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV