Veruleg fjárfesting HB Granda á Vopnafirði

10.02.2016 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: vopnafjardarhreppur.is  -  Magnús Már
Bolfiskvinnsla hefst á ný á Vopnafirði í haust og mun HB Grandi ráðast í mikla fjárfestingu við uppbyggingu vinnslunnar, að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar forstjóra HB Granda. Áætlanir fyrirtækisins voru kynntar á fjölmennum íbúafundi um atvinnumál í félagsheimilinu Miklagarði í gærkvöldi. Byggðastofnun mun einnig koma að vanda byggðarlagsins með íbúaþingi og mögulega í framhaldi af því sértækum aðgerðum. Ekki liggur fyrir hvort byggðarlagið fær aukinn byggðakvóta vegna þessa.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra ávarpaði einnig fundinn sem og Aðalsteinn Þorvaldsson forstjóri Byggðastofnunnar. Lítil vinnsla hefur verið í fiskiðjuveri fyrirtækisins síðan í nóvember en skip félagsins halda til loðnuveiða næstu helgi. Vinnsla HB Granda á Vopnafirði hefur verið sérhæfð síðan 2007 þegar bolfiskvinnsla var lögð niður og fyrirtækið einskorðað sig við afurðir úr uppsjávarveiðum síðustu ár.

Mestur hluti tekna Vopnfirðinga frá HB Granda

Uppsjávarveiðin hefur skapað fyrirtækinu gífurlegan arð en þó hafi hallað undan fæti síðustu misseri, að sögn Vilhjálms. Í tölu sinni fór hann yfir þá fjármuni sem væru í húfi fyrir efnahagsreikning Vopnafjarðar í víðu tilliti. Launagreiðslur til starfsfólks og önnur gjöld til sveitarfélagsins nemi um 1200 milljónum króna á ársgrundvelli. Vilhjálmur sagði stjórnendur HB Granda hafa skoðað ýmsa möguleika en að lokum komist að þeirri niðurstöðu að bolfiskvinnsla væri eini raunhæfi valkosturinn með viðunandi arðsemi.

Hópur stjórnenda hefur hafið vinnu að undirbúningnum eftir að stjórn félagsins ákvað á fundi í síðustu viku að fjárfesta í bolfiskvinnslu. Um nokkra hundruði milljóna sé að ræða sem fari í uppbygginguna og er stefnt að því að vinnslan taki til starfa að lokinni sumarvertíð á síld og makríl. Vinnslan mun liggja niðri þegar aðrar vertíðir eru í gangi.

 

Atvinnulífið á Vopnafirði byggir á umsvifum HB Granda. Samkvæmt tölum sem komu fram á fundinum eru 80 af 674 skráðum íbúum hreppsins fastráðnir hjá fyrirtækinu sem skaffar alls um 120 ársverk. Launagreiðslur, viðskipti við fyrirtæki á staðnum og beinar greiðslur fyrir þjónustu sveitarfélagsins námu í fyrra um 1200 milljónum króna.

 

Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði er vonast til þess að sem flestir af fastráðnum starfsmönnum fyrirtækisins geti í framhaldinu treyst á stöðuga vinnu allan ársins hring.