Verksmiðja United Silicon í gang á sunnudag

19.05.2017 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gangsetja á ofn kísilmálmverksmiðju United Silicon hf. í Helguvík á sunnudaginn klukkan fjögur með samþykki Umhverfisstofnunar.

Í tilkynningu frá United Silicon kemur fram að í kjölfar ítarlegrar úttektar norska ráðgjafafyrirtækisins Multikonsult hafi búnaður verksmiðjunnarverið endurbættur og lagaður. Auk þess hafi verið ráðist í frekari framkvæmdir og úrbætur á búnaði. Þessum framkvæmdum sé nú lokið.

Næst þarf Multikonsult að gera úttekt með ofninn í rekstri en það geti tekið allt að þremur vikum að ná upp fullum afköstum og stöðugum rekstri ofnsins. Loftgæðin verða mælt í og við verksmiðjuna en til að fá áreiðanlegar mælingar og til að ákveða aðgerðir sem takmarka að lykt berist frá verksmiðjunni í framtíðinni sé nauðsynlegt að keyra ofninn á mismundandi álagi.  Við þær aðstæður megi reikna með að einhver lykt berist frá verksmiðjunni.

Umhverfisstofun segir í tilkynningu að samþykkt hafi verið að setja verksmiðjuna í gang þar sem norska fyrirtækið hafi komist að niðurstöðu um orsök lyktarmengunarinnar. Hún hafi tengst of lágu hitastigi á afgasi. Vindátt á sunnudag eigi að vera þannig að lyktarmengun eigi ekki að verast yfir Reykjanesbær í upphafi gangsetningarinnar.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV