Verkfall yfirvofandi hjá SAS í Noregi

13.09.2017 - 14:06
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Samninganefndir flugfélagsins SAS í Noregi og flugmanna sitja á fundi hjá ríkissáttasemjara í Ósló og reyna að leysa kjaradeilu sem staðið hefur síðastliðið hálft ár. Takist það ekki leggja 558 flugmenn SAS í Noregi niður störf á miðnætti.

Til fundarins var boðað að ósk stjórnenda SAS. Norskir fjölmiðlar hafa eftir formanni flugmannafélagsins að þeir séu reiðubúnir til viðræðna ef SAS leggur fram nýtt tilboð um bætt kjör. Gerist það ekki hefjist verkfallið á miðnætti, eins og boðað hafi verið. Samninganefndirnar hafa orðið ásáttar um að greina ekki frá gangi viðræðnanna í dag.

Flugmenn segja að kröfur þeirra um launahækkun séu innan hóflegra marka. Þá krefjast þeir aukins atvinnuöryggis og bættra vinnuskilyrða. Að þeirra sögn er vinnuálagið svo mikið að þeir þurfa oft að vinna margar helgar í röð. Nokkrir flugmenn hjá SAS í Noregi eru utan stéttarfélags og leggja því ekki niður störf.

Verkfall hjá SAS í Danmörku og Svíþjóð er ekki yfirvofandi, þar sem þar hafa náðst samningar við félög flugmanna

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV