Verkfall á farskipum 1. febrúar

05.01.2016 - 13:58
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Ótímabundið verkfall á farskipum hefst 1. febrúar. Félag vélstjóra og málmtæknimanna samþykkti verkfall með 95 prósent greiddra atkvæða og skipstjórar og stýrimenn í Félagi skipstjórnarmanna samþykktu verkfall með rúmlega 90 prósent greiddra atkvæða.

Ægir Steinn Sveinþórsson hjá Félagi skipstjórnarmanna segir að verkfallið nái til tveggja skipa Samskipa og fimm skipa Eimskips. Samningar runnu út í lok júní og fundað hefur verið af og til frá þeim tíma. Ekkert hefur gengið í þeim viðræðum og því sé gripið til þessa örþrifaráðs. Guðmundur Ragnarsson formaður félags vélstjóra og málmtæknimanna segir að fundur sé boðaður hjá ríkissáttasemjara á morgun en miðað við gang viðræðnanna sé engin ástæða til bjartsýni.

Mynd með færslu
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV