Verkalýðsforingi myrtur

06.10.2012 - 02:25
Mynd með færslu
Einn af leiðtogum Landssambands námumanna í Suður-Afríku var myrtur í gærkvöld. Formælandi stéttarfélagsins sagði að honum hefði verið stillt upp og hann skotinn, þetta hefði verið aftaka. Hann leiddi ekki getur að því hverjir morðingjarnir væru.

Morðið var framið steinsnar frá hvítagullsnámu fyrirtækisins Lonmin þar sem gengið hefur á með vinnustöðvunum og átökum allar götur frá því í ágúst. Lögregla felldi 34 verkfallsmenn, námumenn Lonmin, við Marikane hvítagullsnámu fyrirtækisins í ágúst.

Forráðamenn Amplats, keppinautar Lonmin, tilkynntu í gær að þeir hefðu rekið tólf þúsund verkamenn fyrir að fara í verkfall til að knýja á um launahækkanir, en alls lögðu 28 þúsund starfsmenn fyrirtækisins niður störf í þrjár vikur.

Fréttaskýrendur telja að þessar uppsagnir verði olía á ófriðareldinn sem logar á vinnumarkaði Suður-Afríku, mesta efnahagsveldis Afríku. Gengi randsins féll strax um fjögur prósent í gær, og margir fjárfestar seldu hlutabréf í námum og fyrirtækjum.

Forystusveit Æskulýðshreyfingar Afríska þjóðarráðsins brást snarlega við fréttunum með yfirlýsingu þar sem segir að Amplats eigi eftir að bíta úr nálinni með þetta. Fyrirtækið græði morð fjár á blóði, svita og tárum verkamanna sem það telji sig geta rekið eins og ekkert sé. Amplats sé í eigu hvítra einokunarfjárplógsmanna sem kæri sig kollótta um lífsbaráttu alþýðu manna.