Verkakonublúsinn er ádeila á græðgi

18.05.2017 - 17:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jónína Björg Magnúsdóttir, fiskverkakona á Akranesi, sendir á næstunni frá sér nýtt lag, Verkakonublús. Lagið samdi hún eftir að fyrstu fréttir bárust af mögulegum uppsögnum fiskverkafólks hjá HB Granda en hún í hópi þeirra sem missa vinnuna. Árið 2015 samdi Jónína baráttukvæðið Sveiattan þegar henni misbauð að starfsfólki HB Granda var launað með íspinna fyrir mikil afköst.

„Boðskapurinn er ádeila á græðgi og að það þurfi alltaf að vera arður alls staðar. Það er ekki bara þannig hjá HB Granda heldur í samfélaginu yfirleitt,“ segir Jónína sem samdi bæði lag og texta. Hún segir vissulega mikilvægt að rekstur fyrirtækja beri arð en að hann mætti í ríkari mæli renna til samfélagsins en ekki aðeins til eigenda.

Jónína birti texta lagsins á Facebook-síðu sinni á dögunum og hét því að taka lagið upp í hljóðveri ef fleiri en þúsund myndu líka við færsluna á innan við sólarhring. Það tókst og færslunni hefur verið deilt tæplega 400 sinnum. Jónína hefur sett saman blúshljómsveit og að öllum líkindum taka þau lagið upp í lok þessa mánaðar.

Starfsfólk HB Granda á von á uppsagnarbréfunum fyrir næstu mánaðamót. Áætlað er að á milli 80 og 90 missi vinnuna. Jónína hefur starfað hjá HB Granda í tæp sjö ár og íhugar nú næstu skref. „Ég er jafnvel að hugsa um að fara að gera eitthvað allt annað. Það má ekki líta á það sem alsvart þó að einhver hurð lokist.“

 

 

Dagný Hulda Erlendsdóttir

Tengdar fréttir