Verði ódýrara að taka erlend lán

16.01.2016 - 16:12
Mynd með færslu
Már Guðmundsson seðlabankastjóri  Mynd: RÚV
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að það verði ódýrara fyrir ríkissjóð, íslenska banka og fyrirtæki að taka erlend lán eftir að erlendu matsfyrirtækin hækkuðu og staðfestu lánshæfismat ríkissjóðs.

 

Matsfyrirtækið Standard og Poor's tilkynnti í gær að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs vegna langtímaskuldbindinga hefði verið hækkuð úr BBB í BBB+ og staðfesti óbreytta einkunn til skamms tíma sem er A-2. Einnig hefur Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings staðfest lánshæfismat ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt sem BBB+ og fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri mynt sem A- Í tilkynningu frá Standard og Poor´s kemur fram að ákvörðun um hækkun lánshæfismatsins sé fyrst og fremst vegna árangurs stjórnvalda við að leysa vandamál sem staðið hafi í vegi fyrir losun fjármagnshafta. Matsfyrirtækið gerir ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs og vaxtagreiðslur lækki á næstu fjórum árum. Már segir að þetta hafi töluverða þýðingu fyrir Íslendinga.

„Þetta hefur þá þýðingu að það verður ódýrara fyrir ríkissjóð og síðan í kjölfarið aðra aðila svo sem eins og bankana og íslensk stærri fyrirtæki sem þegar hafa aðgang að erlendum lánamörkuðum. Það verður ódýrara að taka lán og það auðvitað léttir á vaxtagreiðslum okkar gagnvart útlöndum og viðskiptajöfnuður batnar,“ segir Már.

Ríkissjóður er ekki með mikið af erlendum lánum. „En hann getur núna auðvitað endurfjármagnað þó það sem hann er með á betri kjörum ef hann svo vill og þá verður vaxtakostnaður ríkissjóðs af erlendum lánum lægri,“ segir Már. 

Matsfyrirtækin setji þó fyrirvara um framhaldið. Þau óttist miklar launahækkanir og telja að þrýstingur geti orðið á ríkissjóð í aðdraganda kosninga. „Og svo eigum við eftir að stíga mikilvæg skref varðandi losun haftanna, sérstaklega útboð á aflandskrónum. Þeir gefa mjög sterklega í skyn að ef þetta fer ekki úr böndunum annars vegar og útboðið gengur vel hins vegar að þá gæti orðið framhald af þessari bötnun.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV