Verða ekki fluttir úr landi í nótt

17.02.2016 - 20:45
Martin Omulu, hælisleitandi frá Nígeríu
 Mynd: ruv
Þeir Christian Boadi og Martin Omulu verða ekki fluttur úr landi í nótt líkt og til stóð. Útlendingastofnun synjaði Omulu um hæli og mál hans fór fyrir Hæstarétt sem úrskurðaði í haust að hann ætti að fara úr landi. Sömu meðferð fékk Christian sem er frá Gahna og hefur dvalið hér í á fjórða ár.

MBL greindi fyrst frá þessu. 

„Ég fékk tilkynningu um þetta fyrir skömmu, að beiðni um brottvísun þeirra hefði verið afturkölluð,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, verjandi þeirra Omulu og Boadi. „Með því fororði að ég, fyrir hönd skjólstæðinga minna, myndi sækja um endurskoðun fyrri ákvarðana innanríkisráðuneytisins í málum þeirra. Ég mun sækja um að þeir fái hér hæli af mannúðarástæðum.“

Omulu, sem er frá Nígeríu, sagði í kvöldfréttum að hann hefði komið hingað til lands vegna ofsókna í heimalandi en Omulu er samkynhneigður. 

Einnig átti að flytja af landi brott í nótt nígerískan námsmann úr Tækniskólanum, Idafe Onafe Oghene. Lögfræðingur hans staðfestir í samtali við Vísi að honum verði ekki vísað úr landi.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV