Venesúela eins og púðurtunna

20.04.2017 - 12:25
epa05915863 Demonstrators clash with police during an opposition protest in Caracas, Venezuela, 19 april 2017. Police, using tear gas, dispersed protesters in the center of Caracas. Venezuela is the scene of massive protests for both government supporters
Mótmælafundir gegn stjórnvöldum í Venesúela eru daglegt brauð þar í landi.  Mynd: EPA  -  EFE
Að minnsta kosti þrír féllu í fjölmennum mótmælum í Venesúela í gær. Stjórnarandstaðan segir að þjóðin þoli ekki meira og utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir stjórnvöld sek um að brjóta gegn stjórnarskrá landsins. Forsetinn mætir gagnrýninni af fullri hörku og kallar stjórnarandstöðuna öllum illum nöfnum.

Sautján ára piltur lést í Caracas, höfuðborg Venesúela, þjóðvarðliði féll suður af höfuðborginni og í San Cristóbal, sem liggur við landamærin að Kólumbíu, dó 24ra ára gömul kona. Þar með hafa átta látist í tengslum við mótmæli gegn stjórnvöldum í þessum mánuði. 

Mótmælin í gær eru sögð þau fjölmennustu í þrjú ár, en ófremdarástand ríkir í Venesúela þrátt fyrir að landið ráði yfir einum stærstu olíulindum heims. Glæpatíðni er há og mikill vöruskortur, sérstaklega á brýnustu nauðsynjum; matvöru og lyfjum. Verðbólga er með því hæsta sem þekkist í heiminum og því spáð að hún fari yfir 700 prósent á þessu ári.

Forsetakosningar eru fyrirhugaðar á næsta ári en stjórnarandstaðan heldur því fram að þjóðin sé á barmi örvæntingar og þoli ekki að bíða svo lengi. 

Stjórnarandstaðan hefur í raun verið í meirihluta í þinginu síðan í þingkosningunum sem haldnar voru fyrir tveimur árum, en forseti landsins, Nicolas Maduro, hefur beitt öllum ráðum til að hefta möguleika hennar til að koma breytingum til leiðar. 29. mars síðastliðinn leysti Hæstiréttur þingið upp og færði sjálfum sér völdin og þar með forsetanum og Sósíalistaflokki hans. Stjórnarandstaðan brást ókvæða við og kallaði ákvörðunina valdarán. Þremur dögum síðar sneri Hæstiréttur ákvörðuninni við, en þá þegar voru mótmæli gegn stjórnvöldum hafin. Kornið sem fyllti mælinn var svo ákvörðun stjórnvalda, þann 7. apríl, að útiloka leiðtoga stjórnarandstöðunnar Henrique Capriles frá stjórnmálaþátttöku næstu fimmtán árin, en Capriles hefur tvisvar sinnum boðið sig fram til forsetaembættis.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að Maduro og ríkisstjórnin hefðu brotið gegn stjórnarskrá landsins með því að virða stjórnarandstöðuna ekki viðlits.

Það er lítill sáttatónn í Maduro. Hann kallar stjórnarandstöðuna skemmdarvarga og hryðjuverkamenn og hefur beitt lögreglu og þjóðvarðliðum gegn mótmælendum af fyllstu hörku, með vatnsslöngum og táragasi.

Boðað hefur verið til áframhaldandi mótmæla í dag.