Velta fyrir sér hvort tími aðgerða sé liðinn

15.03.2016 - 19:55
„Menn spyrja sig hvort tími aðgerða sé í raun og veru liðinn, hvort það sé of seint að grípa til aðgerða nema þær séu þeim mun drastískari," segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Hlýnun jarðar sló öll met í síðasta mánuði og var febrúarmánuður tæplega einni og hálfri gráðu heitari á heimsvísu en meðaltal síðustu áratuga.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Við tökum eftir því að síðustu tveir mánuðir skera sig mjög rækilega úr. Ég sé það að þetta hefur vakið loftslagsvísindamönnum mikinn ugg í brjósti. Þeir áttu ekki von á að sjá svona miklar breytingar og þeir eru bara slegnir,“ segir Einar. 

Flest ríki heims samþykktu loftslagsáttmála á fundi í París í fyrra og verður hann formlega undirritaður í apríl. Í samningnum er stuðst við vísindaleg rök til að sýna fram á nauðsyn þess að fara ekki yfir hættumörk hvað varðar hlýnun jarðar. Einar segir að Parísarfundurinn hafi vakið mönnum von í brjósti. „Við verðum að hafa í huga að nú þegar menn vilja draga úr losun koltvísýrings eða annarra gróðurhúsalofttegunda, þá hefur jarðefnaeldsneyti ekki verið ódýrara í mörg ár og mikið framboð af því og mikið brennt.“

Ekki bætir úr skák að síðustu þrjú ár hefur hvert ár verið heitara en árið á undan. Árið í fyrra var það heitasta frá upphafi mælinga á 19. öld og spáð er að 2016 verði enn heitara. 

Stefan Rahmstorf, prófessor við Potsdam veðurrannsóknarstöðina í Þýskalandi, sagði í viðtali á dögunum að þessar mælingar væru sláandi og algjörlega án fordæmis. Skilgreina þyrfti ástandið sem neyðarástand í umhverfis- og loftslagsmálum.

Hlutfall koltvísýrings í andrúmsloftinu er einnig að hækka ört, sem eykur enn hlýnun jarðar. Hlutfallið hækkaði meira á síðustu tólf mánuðum en á nokkru öðru tímabili í 56 ár. 

Veðurfyrirbærið El Niño hefur vissulega haft einhver áhrif á aukninguna, og hækkandi hitastig, en það virðist ekki skýra allan muninn. Breska ríkisútvarpið hefur eftir Petteri Taalas, vísindamanni við Alþjóðaveðurfræðistofnunina, að El Niño hafi aðeins takmörkuð og skammvinn áhrif á mynstrið. Útblástur af mannavöldum hafi leitt af sér breytingar sem eigi sér enga hliðstæðu í allri sögu mannsins. „Koltvísýringsinnihaldið í andrúmsloftinu er að aukast mjög hratt um þessar mundir, vissulega á El Niño á einhvern þátt í því.  Menn spyrja sig hvort tími aðgerða sé liðinn,“ segir Einar. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV