Vel fylgst með og staðan metin í fyrramálið

14.03.2016 - 00:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavár Veðurstofunnar, segir að vel sé fylgst með svæðinu í Geirseyrargili á Patreksfirði þar sem hætta er á krapaflóðum og að staðan verði endurmetin í fyrramálið. Rýma þurfti 21 hús á níunda tímanum í kvöld en Harpa segir svæðið hafa stækkað en að samhliða því hafi rennsli aukist og þrýstingur minnkað sem sé gott.

Hún segir það einnig gott að spár geri ráð fyrir því að það fari að kólna um og eftir miðnætti - það dragi úr líkunum á krapaflóðum.  Tíu metra breitt krapaflóð féll á hús í Bíldudal í dag. Það rann með fram varnargarði sem reistur var árið 2009, og féll á hús við Lönguhlíð, sem ekki er varið af garðinum og var keypt af sveitarfélaginu þegar garðurinn var reistur.

45 íbúar þurftu að yfirgefa hús sín á Patreksfirði - 31 er nú í fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Fosshóteli. Helga Gísladóttir, formaður Barðastrandadeildar, sagði í samtali við fréttastofu nú fyrr í kvöld að allir væru vel haldnir. Nokkur börn væru í hópnum og þeim hefði fundist þetta sport.

Vonskuveður hefur verið frá því síðdegis á Vestfjörðum og óvissustigi var lýst yfir á sunnanverðum Vestfjörðum. Skemmtibáturinn Nökkvi var að losna frá bryggju um níu leytið í kvöld og þurftu björgunarsveitarmenn að bregðast skjótt við til að forða tjóni.

Reimar Vilmundarson, starfsmaður svæðisstjórnar hjá björgunarsveitinni Erni í Bolungarvík, sagði að sveitin hefði haft í nægu að snúast frá því um fimm leytið í dag. Þá fór að hvessa með tilheyrandi verkefnum fyrir björgunarsveitina - festa þurfti landganga og flotbryggjur, fiskihjallur fauk og þá sprakk rúða í bíl björgunarsveitarinnar. Reimar segir að þegar veðrið var verst hafi sterkustu hviðurnar verið milli 40 og 45 metrar á sekúndu.

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg kom fram að um hundrað björgunarsveitarmenn hefðu verið að störfum í kvöld - meðal annars í Stykkishólmi, Garði, Patreksfirði, Akranesi og Reykholti. Þá barst tugur beiðna um aðstoð á höfuðborgarsvæðinu - Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sagði þetta hafa verið minniháttar útköll - þakplötur að fjúka og annað lauslegt.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV