Vegum líklega lokað vegna veðurs í dag

04.02.2016 - 07:10
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Vegna óveðurs má búast við því að í dag þurfi að grípa til lokana á vegum á Suðvesturlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Líkur eru á því að um og uppúr hádegi verði vegum lokað yfir Hellisheiði, um Þrengsli og á Mosfellsheiði. Ólíklegt er að unnt verði að beina umferð um Suðurstrandarveg á meðan aðrir vegir eru lokaðir. Þá er líklegt að einnig þurfi að loka Vesturlandsvegi um Kjalarnes.

Lægð, sem dýpkar ört, suður af landinu mun valda ofanhríð og stormi eftir hádegi í dag, fyrst á Hellisheiði frá því um og uppúr hádegi og um miðjan dag um allt sunnanvert landið.

Það verður austanátt, átján til 25 metrar á sekúndu og reiknað með snörpum byljum undir Eyjafjöllum, í Öræfum og á Kjalarnesi. Það má búast við því að það verði mjög blint. Síðdegis er búist við rigningu eða slyddu og má þá búast við mikilli hálku. Lægðin færir sig svo norður yfir landið annað kvöld. 

Næstu daga verða allhvassar eða hvassar norðaustanáttir með talsverðri snjókomu eða éljagangi fram yfir helgi, en dregur síðan úr vindi og ofankomu og kólnar í veðri.

Og færðin eins og hún var klukkan 6:44 samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni. 

Éljagangur er víða um suðvestanvert landið. Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og Suðurnesjum. Það er hálka bæði á Hellisheiði og í Þrengslum, og skafrenningur. Snjóþekja og hálkublettir eru á Hringveginum á Suðurlandi en á öðrum vegum á Suðurlandi er víða hálka. Þæfingur er á Suðurstrandavegi.

Hálka og snjóþekja er allvíða á Vesturlandi, ekki síst á Snæfellsnesi og á fjallvegum. Eins er hálka á Vestfjörðum, víðast hvar, og sums staðar skafrenningur á heiðum. Ófært er á Kleifaheiði.

Hálka er á flestum vegum á Norðurlandi og sums staðar éljagangur.

Hálka er á flestum aðalleiðum á Austurlandi en annars víða snjóþekja, einkum á sveitavegum.

Hálka og snjóþekja er með suðausturströndinni en þungfært er á Mýrdalssandi og ófært á Reynisfjalli og á Sólheimasandi.

 

 

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV