Veðurstofan varar við snjóflóðum og sólbruna

14.02.2016 - 07:43
Mynd með færslu
Óstöðug snjóalög eru víða á fjöllum. Veðurstofan varar við því að hætta sé á að ferðafólk komi af stað snjóflóðum, ef ekki er varlega farið.  Mynd: Flugbjörgunarsveitin Hellu
Veðurstofan varar við hættu á snjóflóðum til fjalla og sólbruna, ef ekki er varlega farið. Í athugasemd veðurfræðings á heimasíðu Veðurstofu Íslands er fólki sem hyggur á ferðir í fjalllendi bent á að óstöðug snjóalög séu í fjöllum víða um land, og því hætta á að ferðamenn komi af stað snjóflóðum. Þá mælist óvenjulágt óson yfir landinu í dag, eins og í gær og því meiri hætta á sólbruna en ella.

 Spáð er sólbjörtu veðri, og er útivistarfólki bent á að rík ástæða sé til að verja sig gegn geislum sólar með sólgleraugum og sólarvörn, hyggist það verja miklum tíma í sól. Þetta á alveg sérstaklega við þar sem snjór er á jörðu. 

Veðurhorfur í dag og á morgun

Í dag verður fínasta vetrarveður á öllu landinu og víða talsvert af sólskini, en kalt. Í kvöld fer dregur til tíðinda þegar allmikil lægð kemur inn á Grænlandshaf. Þá hvessir af suðaustri og snjóar suðvestanlands. Á morgun gengur síðan suðaustanstormur yfir landið með talsverðri og sums staðar mikilli rigningu eða slyddu. Á Norðausturlandi verður þó heldur hægara og úrkomulítið fram á kvöld. Hlýnandi veður í bili og hiti 0 til 5 stig á morgun.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV