Vaxtarkippur í Vaðlaheiðargöngum

03.04.2017 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Síðustu tvær vikur hefur gröftur í Vaðlaheiðargöngum gengið vel og þau verið lengd um 146 metra, 58 metra í þar síðustu viku og 88 í síðustu viku. Þetta eru langtum lengri kaflar en áður hafa verið grafnir á þessu ári, en meðaltalið var um 19 metrar á viku. Nú er meðaltalið komið í 27 metra. Á síðasta ári voru göngin lengd að meðaltali um 39 metra á viku.

Á Facebook-síðu Vaðlaheiðarganga er bent á að gangi gröfturinn svo vel áfram verði gegnumslag í apríl. Lítið er þó hægt að fullyrða um slíkt, því ekki er vitað hvernig jarðlögin eru fram undan.

Í janúar sagðist framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga vonast til þess að gegnumslag yrði í febrúar en mjög erfið jarðlög hafa gert verktakanum lífið leitt, þar til nú. Tvöhundruð þrjátíu og þrjá metra vantar upp á til að ná gegnumslagi og því er búið að grafa rétt tæplega 97% af göngunum.

Upphaflega var stefnt að gegnumslagi í september 2015 og að göngin yrðu tilbúin til notkunar í árslok 2016. Nú er stefnt að því að göngin verði opnuð haustið 2018, og unnið er að því útvega það fjármagn sem upp á vantar til að klára göngin sem eru rúmir þrír milljarðar króna.