Vatnajökull verður að litlum jöklum

12.01.2013 - 20:17
Mynd með færslu
Vatnajökull er tvöfalt næmari fyrir loftslagsbreytingum en sambærilegir jöklar í Alaska og Kanada. Afleiðingin er hraðari bráðnun og verður Vatnajökull að nokkrum minni jöklum eftir hundrað til tvö hundruð ár með sama áframhaldi.

Þetta kom fram í erindi sem Shawn Marshall, sem starfar við háskólann í Calgary, hélt á jarðfræðiráðstefnu í Háskóla Íslands í dag. Tilefni ráðstefnunnar var sjötugsafmæli Helga Björnssonar, helsta jöklafræðings Íslands. Í erindi Marshalls kom fram að lofslagsbreytingar hafa mun meiri áhrif á íslenska jökla heldur en aðra jökla á norðurhveli jarðar.

Hröð bráðnun hér á landi

Ef loftslagið hlýnar um eina eða tvær gráður verður Vatnajökull fyrir tvisvar sinnum meiri áhrifum en jöklar í vesturhluta Kanada eða í Ölpunum,“ segir Marshall. „Jöklar hér á landi bráðna tvöfalt hraðar en annars staðar við jafnmikla hlýnun loftslags. Þetta eru öflug áhrif.“

Áhrif frá Norður-Atlantshafi

Mashall segir að orka frá skýjum og Norður-Atlantshafinu orsaki þetta. hún sé mjög mikil á Íslandi. Og afleiðingarnar verða gríðarlegar. „Þetta eru slæmar fréttir því það þýðir að jöklarnir hverfa mjög hratt miðað við suma aðra jökla. Meira að segja litlir fjallajöklar gætu enst lengur en Vatnajökull.“

Brotnar í smærri jökla

Shawn Marshall segir að þetta þýði þó ekki að Vatnajökull hverfi alveg, en hann breytist mjög. „Á næstu 100-200 árum brotnar hann líklega niður í smærri jökla sem verða kannski svipaðir og Hofsjökull eða aðrir smáir jöklar, en þeir halda svo áfram að hopa. Það verða líklega ennþá jöklar á fjallstindum en ekkert í samanburði við þann Vatnajökul sem við þekkjum í dag.“