„Varúðarljósin eru farin að blikka aðeins“

11.02.2016 - 13:10
„Ég verð hugsi þegar ég sé byggingakrana. Það er alveg klárt mál", segir Katrín Ólafsdóttir um þensluna sem fylgir miklum og vaxandi straumi ferðafólks til landsins. En þessi uppgangur skýrir að verulegu leyti góðan hagvöxt í landinu. Hún minnir hinsvegar á að ferðaþjónustan er viðkvæm atvinnugrein og að við verðum að vera tilbúin að mæta áföllum. Katrín ræddi stöðu efnahagsmála á Morgunvaktinni á Rás 1.

Staðan í efnahagsmálum er mjög góð á Íslandi tæpum átta árum frá því bankahrunið varð. „Hagvöxtur er tiltölulega hár, atvinnuleysi hefur minnkað mikið og verðbólgan hefur ekki látið á sér kræla. Ef við horfum á þessu helstu vísa, þá er staðan í efnahagslífinu mjög góð, sérstaklega miðað við önnur ríki í kringum okkur“, sagði Katrín Ólafsdóttir í viðtali við Björn Þór Sigbjörnsson á Morgunvaktinni.

Margt kemur til. Uppgangurinn í ferðaþjónustunni, með mikilli fjölgun ferðamanna, hefur haft mikið að segja. Þar hjálpa okkur hagstæð skilyrði erlendis: lítil verðbólga og lækkandi olíuverð á heimsmarkaði. Á sama tíma hefur krónan styrkst. Hagvöxturinn hér á Íslandi er að verulegu leyti knúinn af fjölgun ferðamanna, en ekki að eins miklu marki af einkaneyslu. „Að vísu erum við komin að þenslumörkum“, segir Katrín, og bætir við: „Varúðarljósin eru farin að blikka aðeins. Þannig að við þurfum að fylgjast með því hvaðan hagvöxturinn er að koma, að þetta sé ekki hrein neysla, heldur að eitthvað sé að baki. Jákvætt er að hluti hagvaxtarins kemur frá fjárfestingum – í íbúðarhúsnæði og öðrum byggingum. Það verður alltaf að gæta þess að fara ekki yfir strikið, fara ekki lengra en hagkerfið þolir, að við höfum mannafla til að vinna verkin“.

Stundum er sagt að það sé áhyggjuefni ef of margir byggingakranar teygja sig til himins á sama tíma. Hefur Katrín Ólafsdóttir áhyggjur af fjölda byggingakrananna? „Ég verð hugsi þegar ég sé byggingakrana. Það er alveg klárt mál. Það hefur verið þörf fyrir byggingar, sérstaklega hótel og íbúðir. En svo spyr maður: hvar liggja mörkin? Stór hluti þessara framkvæmda hafa verið hótelbyggingar. Erlendum ferðamönnum fjölgar stöðugt. Ný met eru slegin í hverjum mánuði.

Það sem er þá umhugsunarefni er að þessi þjónusta getur verið verið mjög hverful. Við erum í tísku eins og er. Spurningin er hinsvegar hvað gerist ef við dettum úr tísku eða við fáum neikvætt umtal út af einhverju“, segir Katrín. Hún bendir á að það geti þurft lítið til að orðspor landsins versni. „Þetta er mjög viðkvæm þjónusta. Viðkvæm atvinnugrein. Og við þurfum að vera undir það búin að það gæti komið bakslag – og það gæti orðið stórt. Þessu megum við ekki gleyma“. Hún hvetur til aðgætni og að við búum okkur undir áföll – þó hún sé ekki að spá þeim.

En höfum við lært af hruninu? „Sumt höfum við lært. Að öðru leyti virðumst við ekkert hafa lært. Það er áhyggjuefni, verð ég að segja. Ef næg atvinna er, þá er jákvætt að flytja inn vinnuafl í stað þess að auka á þensluna innanlands. Að einhverju leyti kunnum við betur á þetta, en að öðru leyti þurfum við að vera meðvituð um að við getum auðveldlega farið framúr okkur. Það höfum við gert áður og erum líkleg til að gera það á ný. Við förum í hringi. Minnið nær ekkert rosalega langt“, sagði Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur á Morgunvaktinni. 

 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi