Varð reiður þegar hann sá landsliðsbúninginn

01.03.2016 - 15:47
Nýi landsliðsbúningurinn fær ekki góða dóma hjá þeim álitsgjöfum sem RÚV.is leitaði til. Fánaröndin er einna helst gagnrýnd. Guðmundur Jörundsson segist hreinlega hafa orðið reiður þegar hann sá búninginn. Álfrún Pálsdóttir, ritstjóri Glamour, segir að fánaröndin sé misheppnuð og tekur undir að hún minni á grænmetispakkningar. Arnar Gunnlaugsson gefur búningnum 6,5 af 10.

Bauðst til að hanna búninginn frítt

„Ég held að þetta sé ljótasti búningur sem landsliðið hefur verið í og er úr mörgum að velja. Ég varð bara raunverulega reiður þegar ég sá hann,“ segir Guðmundur Jörundsson hönnuður. „Fánaröndin er ekki falleg, grafíkin í henni ljót og kraginn er skrýtinn. Þetta er eins og slappur búningur úr utandeildinni.“

Guðmundur gagnrýnir KSÍ fyrir að fá ekki fagfólk í verkið. „KSÍ gefur sig út fyrir fagleg vinnubrögð og þeir hefði að mínu mati átt að leita til fagaðila.“ Guðmundur segist hafa átt í samskiptum við KSÍ á sínum tíma vegna búningsins og hreinlega boðist til að hanna hann frítt. „En þetta er niðurstaðan. Hver vill líka kaupa þetta? Ekki myndi ég ganga í þessu,“ segir Guðmundur sem harmar að ekki hafi verið staðið betur að hönnun og kynningarefni.

Sniðið fallegt en röndin út úr kú

„Mín fyrstu viðbrögð eru þau að mér finnst sniðið fallegt og kraginn flottur en fánaröndin alveg út úr kú,“ segir Álfrún Pálsdóttir, ritstjóri Glamour. „Á Twitter var verið að tala um að fánaröndin væri eins og íslensku grænmetisumbúðirnar. Eins og umbúðir á íslenskri gúrku. Það er nokkuð til í því.“

Álfrún telur KSÍ hefði getað gert meira úr þessum fyrsta búningi Íslands á stórmóti í knattspyrnu karla. „Mér finnst KSÍ hafa misst svolítið af tækifæri með því að fá flotta íslenska hönnuði til að koma að þessu og lyfta búningnum og umfjöllun um hann á hærra plan.“

Álfrún segir mögulegt að fánaröndin venjist með tímanum. „En fyrstu viðbrögð eru flott snið en búningurinn hefði mátt vera einfaldari, burt með röndina.“

„Æ sjitt“

„Fyrst þegar ég sá hann hugsaði, æ sjitt,“ segir Arnar Gunnlaugsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu. „Það er eitthvað við röndina sem pirrar mig, full gamaldags. Helst hefði ég viljað sjá unnið meira með bláa litinn sem er auðvitað draumur í dós. Mismunandi tóna á til dæmis sokkum, buxum og treyju. Blái liturinn er svo fallegur og hægt að útfæra á marga vegu. Ég gef búningnum 6,5 af 10.“

Arnar hefur leikið í þó nokkrum útgáfum af landsliðsbúningnum. Hann segir að þó gera hefði mátt betur sé nýi búningurinn betri en þeir eldri. „Þeir voru bara eins og kjólar, engin hönnun. Sniðið í þessum er þó gott. Fallegt og þægilegt fyrir leikmenn.“

Mynd með færslu
 Mynd: Glamour.is  -  RÚV
Álfrún Pálsdóttir, ritstjóri Glamour.
Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV