Varaslökkviliðsstjóri kemur frá Noregi

29.02.2016 - 17:39
Mynd með færslu
 Mynd: Bergen Brannvesen  -  Brunavarnir Árnessýslu
Stjórn Brunavarna Árnessýslu hefur ráðið Sverri Hauk Grönli í starf varaslökkviliðsstjóra. Hann var valinn úr hópi 8 umsækjenda. Sverrir Haukur er kennslustjóri slökkviliðsins í Björgvin í Noregi, þar sem hann hefur starfað í 6 ár. „Þetta er sannarlega búbót fyrir okkur. Við fáum nýja og ferska vinda í þjálfunina og örugglega fleira, glöggt er jú gestsaugað“, segir Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri.

Sverrir Haukur var slökkviliðsmaður hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í áratug áður en hann hélt til náms í slökkvifræðum í Svíþjóð og Noregi. Auk kennslufræða hefur hann hlotið sérmenntun varðandi eld í skipum og gróðri, fjallabjörgun og fleiru. „Hann kemur með góða reynslu frá Noregi og mögulega nýja vinkla á hlutina. Hann hefur verið þar í stóru hlutverki, liðið í Björgvin þjónar 500 þúsund manna byggð“, segir Pétur. Sverrir Haukur undirbýr nú flutning fjölskyldu sinnar í Árnesþing.

 

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV