Varað við stigmögnun stríðsins í Sýrlandi

20.02.2016 - 12:06
epa04865564 General view of the United Nations Security Council (UNSC) during a vote on the situation in the Ukraine and Malaysia Airlines Flight 17 at the UN headquarters in New York, USA, 29 July 2015. Russia vetoed a UN Security Council resolution
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á fundi.  Mynd: EPA
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafnaði í gærkvöld tillögu Rússa að ályktun, þar sem skorað er á Tyrki að láta af hernaðaraðgerðum í Sýrlandi. Tillagan var lögð fram á neyðarfundi í Öryggisráðinu. Fundurinn var boðaður að beiðni Rússa, sem óskuðu eftir því að ræða mögulega innrás Tyrkja í Sýrland.

 

 

Tyrknesk stjórnvöld hafa gefið í skyn að þau ætli að taka þátt í hernaðaraðgerðum í Sýrlandi ásamt bandamönnum á borð við Sádi-Araba. Þá hafa Tyrkir gert loftárásir á liðssveitir Kúrda í norðurhluta Sýrlands.

 

Frakkar höfnuðu drögum Rússa þegar í stað. Sendiherra Frakka í öryggisráðinu varaði við stigmögnun stríðsins í Sýrlandi, sem gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Talsmaður stjórnvalda í Moskvu lýsti í dag vonbrigðum með að drögum að ályktun hafi verið hafnað. Þá tilkynntu Rússar í dag að þeir ætli sjálfir að halda áfram hernaðaraðgerðum í Sýrlandi, til að styðja stjórn Assads forseta. Sameinuðu þjóðirnar og  þjóðir Atlantshafsbandalagsins hafa ítrekað krafist þess að Rússar hætti loftárásum sínum í Sýrlandi, en fjölmargir almennir borgarar hafa fallið í árásunum. Þá eru árásirnar sagðar ekki síst beinast gegn stjórnarandstöðunni í Sýrlandi og andstæðingum Assads Sýrlandsforseta, þó þær séu sagðar beinast gegn hryðjuverkamönnum.

 

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV