Varað við djúpfrystum berjum

12.04.2013 - 03:28
Mynd með færslu
Sóttvarnastofnun Svíþjóðar hefur hvatt neytendur til að sjóða djúpfryst ber, sem keypt eru í verslunum, í eina mínútu áður en þeirra er neytt til að koma í veg fyrir smit á lifrarbólgu A.

Frá því í desember hafa yfir 20 greinst með lifrarbólgu vítt og breitt um Svíþjóð. Eðlileg tala ætti að vera um 5. Smitvaldurinn er enn ófundinn og viðvörunin er í gildi þangað til hann finnst. Sumir hinna sýktu eru með sjúkdóminn af sömu gerð og greinst hefur í Danmörku. Þar hafa um 30 veikst og smitið er rakið til djúpfrystra berja, aðallega jarðarberja. Að sögn Sóttvarnastofnunarinnar hefur einnig verið tilkynnt um aukningu á lifrarbólgu A í Noregi og Finnlandi.