Vantar stefnu um öryggi á ferðamannastöðum

10.02.2016 - 13:19
Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að það þurfi að marka heildarstefnu í öryggisgæslu á ferðamannastöðum. „Mjög margir ferðamannastaðir eru á hættulegum stöðum og þurfa eitthvert eftirlit sem lögreglan getur ekki sinnt sökum fjárskorts og mannaflaleysis."

Erlendur karlmaður lést í Reynisfjöru á ellefta tímanum í morgun. Maðurinn missti fótanna í flæðarmálinu og fór út með öldunni. Maðurinn var á ferðalagi með konu sinni þegar slysið varð. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út eftir að tilkynning barst um slysið sem og björgunarsveitir frá Vík og Vestmannaeyjum. Fjölmennt var í fjörunni í morgun að sögn sjónarvotta. Sæmilegt veður var á slysstað en eftir því sem fréttastofa kemst næst var sjór úfinn. 

Eitthvað sem ekki eigi að sætta sig við

Sveinn segir að taka þurfi á öryggismálum á ferðamannastöðum og þar standi meðal annarra upp á stjórnvöld. „Í Reynisfjöru er búið að gera ýmsilegt sem bæði Landsbjörg og sveitarfélagið hafa komið duglega að og landeigendur. En það verður að gera betur. Við sáum það á þessum myndböndum um helgina og heyrum af þessum „næstum því slysum" í hverri einustu viku. Einhvern tímann, eins og nú í morgun, gerast slysin og þetta er eitthvað sem við eigum ekki að sætta okkur við að geti gerst."